Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 12:01:24 (821)

2002-10-31 12:01:24# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[12:01]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem hæstv. sjútvrh. hefur hér fylgt úr hlaði er í sjálfu sér ekki stórt í sniðum. Í því eru samt ákvæði sem eru áhugaverð þó lítil séu í tonnum talin. Eins og hér hefur komið fram voru, með breytingu á fiskveiðilögunum í lok þings 2002, settar inn sérstakar aflaheimildir sem ráðherra skyldi ráðstafa, annars vegar til tilrauna með áframeldi á þorski og hins vegar til stuðnings byggðarlögum sem lent hefðu í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Þetta er kannski mest spennandi og var náttúrlega aðaltilgangurinn að koma á áframeldi í þorski. Við sjáum hvernig það er að þróast, hvernig menn veiða og setja í nót eða í kvíar til að fylgjast með í áframeldi. Þetta sjáum við í fjölmörgum fjörðum. Ég hef átt þess kost að fylgjast með þessu í mínum ástkæra firði, séð hvernig þar er farið að.

Hitt atriðið er ákveðinn hluti af kvóta, 1.500 tonn sem talað er um að ráðherra fái heimild til að ráðstafa til hjálpar byggðarlögum sem lent hefðu í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Þau byggðarlög eru því miður fjölmörg. Ég vil fyrir mitt leyti segja að ég held að þetta sé sjálfsagt lagafrv. sem hlýtur að fara fljótt í gegn með þessari breytingu, en það má auðvitað ræða, og það ætla ég að gera hér, um byggðakvóta og hvernig þessum heimildum verður ráðstafað.

Eins og ég sagði áðan fylgdu með í þessu 1.500 lestir af botnfiski, við skulum bara kalla það nýjan byggðakvóta, nema menn noti annað orð um þessa úthlutun. En fyrir er 1.500 tonna kvóti sem Byggðastofnun hefur ráðstafað. Það segir hér í athugasemdum með frv. að fram hafi komið að hafa skyldi í því sambandi samráð við Byggðastofnun um úthlutun á þessum 1.500 tonnum.

Enn fremur segir í athugasemdum, herra forseti:

,,Þar sem það hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir að setja reglur um þessa sérstöku úthlutun kom hún ekki til framkvæmda á fiskveiðiárinu 2001/2002. Er því lagt til að þessi heimild flytjist til yfirstandandi fiskveiðiárs og verði því úthlutað 2.000 lestum í framangreindum tilgangi í ár.``

Herra forseti. Í framhaldi af þessu vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. sjútvrh. um úthlutunarreglur fyrir kvótann sem hér um ræðir, þ.e. þessi 2.000 tonn: Hvernig gengur að smíða þær úthlutunarreglur? Hvers vegna hefur það tekið svo langan tíma? Er það e.t.v. vegna ágreinings og deilna sem voru innan Byggðastofnunar eða eru það átök milli Byggðastofnunar og sjútvrn. um hvernig fara skuli með úthlutun á þessu og hvaða reglur munu gilda?

Ég spyr sem sagt eftir því hvaða aðferð verður notuð við að meta hvaða byggðarlög fá og hver ekki. Verður haft samráð við Byggðastofnun eins og hér er kveðið á um eða mun hæstv. sjútvrh. e.t.v. beita sér fyrir því að þessi byggðakvóti verði auglýstur og þá sitji allir við sama borð hvort sem það eru sveitarfélög eða aðrir? Inn í þessa spurningu má að sjálfsögðu flétta spurninguna: Verður byggðakvóta eingöngu úthlutað til þeirra sem gera út og hafa kvóta fyrir? Verður þessu úthlutað til sveitarfélaga eða verður þessu kannski úthlutað til fiskvinnslustöðva líka? Hverjir munu eiga möguleika á að njóta þessara 2.000 lesta af þorski sem þarna á að úthluta?

Herra forseti. Það er ákaflega mikilvægt að koma af stað umræðu um þetta mál og inn í þá umræðu hljóta að blandast sveitarfélög sem hafa lent í vandræðum eða lent í vanda, eins og hér stendur, vegna samdráttar í sjávarútvegi. Byggðarlög hafa misst frá sér kvóta á einn eða annan hátt og eftir stendur vandamál vegna þess að grunnatvinnustarfsemin sem viðkomandi byggðarlag byggðist á er ekki lengur til staðar. Allur kvótinn eða stór hluti hans er farinn og eftir stendur byggð sem má muna sinn fífil fegri, vantar aflaheimildir, vantar afla að vinna, eiga ekki möguleika á að gera það sem þeir kunna best og hafa gert vel í gegnum tíðina. Markaðslögmálin og hagræðingin hafa ekki dugað fólki á viðkomandi stöðum þótt vafalaust hafi orðið hagræðing fyrir fyrirtækin sem keyptu til sín aflaheimildirnar. Fyrirtækin ná meiri hagræðingu og meiri hagnaði og rekstur þeirra er betri. Með öðrum orðum, herra forseti: Markaðslögmálin eiga ekki við alls staðar og það hefur sannarlega komið í ljós á mörgum stöðum á landsbyggðinni, að hagræðingin í sjávarútvegi hefur gert það að verkum að mörg byggðarlög hafa verið gjaldfelld. Ég vil nota það orð, gjaldfelld. Þau hafa verið gjaldfelld með einni undirskrift handhafa kvótans þegar hann hefur selt kvótann frá sér. Eftir standa íbúar með verðlitlar eða verðlausar húseignir. Með öðrum orðum er ævistarfið þeirra gert nánast upptækt með einni undirskrift. Þetta er það versta, herra forseti, og ég hef áður sagt það, við kvótakerfið.

Ég ætla að leyfa mér að taka undir það sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson gerði að umræðuefni áðan. Mig langar að segja frá því þegar ég átti kost á að ferðast með fjárln. um Norðausturland ekki alls fyrir löngu, áður en þing hófst. Heimsókn okkar í eitt byggðarlagið var mér sérstaklega minnisstæð. Ég á auðvitað við þann ágæta stað Grenivík, eða Grýtubakkahrepp. Sveitarstjórinn þar lýsti kostum þess sveitarfélags, sýndi okkur glæsilegt elliheimili, glæsilegan skóla, glæsilega íþróttaaðstöðu, krakka sem teknir voru úr tíma og fóru í heimilisfræðslu til að elda ofan í aðra krakka skólans í mötuneyti staðaðarins, þarna var verið að elda fiskibollur sem allir í skólanum áttu að koma og borða.

Þá var haldið áfram til fundar með sveitarstjóranum, farin hringferð um plássið. Þegar við keyrðum um höfnina og sáum hið mikla og glæsilega frystihús spurði ég hvort það væri ekki hér sem sveitarfélagið ætti töluverðan kvóta. Ég minnist þess hve sveitarstjórinn var ánægður og grobbinn þegar hún sagði okkur frá kvótanum sem Grýtubakkahreppur á. Það rann upp fyrir mér að það væri betra ef fleiri sveitarfélög á landinu hefðu ákveðið eignarhald á svo miklum kvóta sem Grýtubakkahreppur á. Sá kvóti er notaður í samvinnu við Útgerðarfélag Akureyrar og til að halda uppi vinnslu á Grenivík. Í fréttum fyrir skömmu upplýsir þessi ágæti sveitarstjóri að hluta af þessum peningum fyrir eignarhald af kvóta hafi hreppurinn getað notað til að byggja upp framleiðslu í lyfjaiðnaði á Grenivík.

Herra forseti. Ég vildi óska þess að ég gæti farið um allt landið og sagt slíkar sögur. Mikið rosalega var ég stoltur af þessari sveitarstjórn. Það kom reyndar upp í huga minn, af því að ég er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður eins og ýmsir aðrir sem hér eru inni, að ég tók þátt í því að mynda meiri hluta á Siglufirði 1990 eftir kosningar. Mér er það ákaflega minnisstætt að einn af þeim aðilum sem ég myndaði meiri hluta með, sem hafði mikið vit á sjávarútvegi og var reyndar útgerðarmaður þá, hreyfði þeirri hugmynd hvort ekki væri ástæða til að slá af ýmsum framkvæmdum sveitarfélagsins, við malbikun gatna jafnvel, byggingu íþróttaaðstöðu eða annars. Hvað átti að gera við peningana? Jú, herra forseti, tillaga hans var að sveitarfélagið mundi kaupa kvóta.

Því miður fékk hugmyndin ekki stuðning en ég hef oft hugsað til þessa. Þetta kom sterklega upp í huga mér þegar ég fór um Grenivík, eins og ég hef lýst áður. Mér kom til hugar að það hefði verið notalegt ef minn heimabær hefði haft aðgang að ákveðnum kvóta, þó að kvóti sé mikill á Siglufirði, ég vil taka það skýrt fram, í gegnum Þormóð ramma -- Sæberg.

Þetta vil ég aðeins taka hér sem dæmi. Ég get tekið önnur dæmi um hvernig þetta hefur verið að þróast. Mér eru líka ákaflega minnisstæðar árlegar heimsóknir mínar í Fiskiðjuna Skagfirðing á Sauðrárkróki. Ég hef þar fengið lýsingar á og séð hvernig þeir reka íshús á hefðbundinn hátt, á gamla mátann. Togara er haldið úti til ísfisksveiða. Hann landar þar vikulega og þar er mikil og góð vinnsla. Með öðrum orðum var fiskvinnsla á þeim stað ekki lögð niður og færð út á sjó. Mér skilst, og ég held að ég viti það með fullri vissu, að hagnaður hafi verið af þeirri vinnslu. Afkoman var góð og starfsmenn þar hafa haft góð laun, ef hægt er að segja svo um þessi láglaunastörf. Þeir hafa a.m.k. haft góða og trygga vinnu.

Svo getum við farið um önnur svæði þar sem við vitum að mikill titringur er vegna kvótastefnunnar eins og hún er í dag, vegna þess frjálsræðis sem er í sölu og kaupum á hlutabréfum og fyrirtækjum. Að sjálfsögðu verður ekki hægt að banna slík viðskipti en að stærstum hluta er það eftirsóknarvert vegna þess að viðkomandi fyrirtæki hefur svo og svo miklar veiðiheimildir. Ég þekki staði í mínu gamla kjördæmi, t.d. Skagaströnd, og hef fylgst með því hvernig þar var farið að. Ég fylgdist með því hvernig sveitarstjórn Höfðahrepps þurfti að verja hlut sinn á sínum tíma til að halda eignarhaldi og meirihlutavaldi á fyrirtækjum þar. Ég ætla rétt að vona að þær breytingar, og er þess reyndar fullviss, verði viðkomandi byggðarlagi til heilla og ekki muni slá í baksegl þar.

Ég þekki líka, herra forseti, titring sem hefur verið á Vopnafirði vegna breytinga sem þar hafa átt sér stað. Þegar í upphafi septembermánaðar voru stórviðskipti með hlutabréf í Tanga sem Hraðfrystihús Eskifjarðar keypti. Ég ætla líka að vona, herra forseti, að þær breytingar verði báðum þeim byggðarlögum til heilla og framþróunar en hagræðingin geri það ekki að verkum að annað hvort byggðarlagið muni dala í framhaldinu, aflaheimildir kannski færast frá því og skipum þar lagt eða eitthvað í þá veru. Ég ætla rétt að vona að þau umskipti gangi vel. Ég vil ekki vera svartsýnn en þó eru ákveðnar hættur á ferðinni í þessu sambandi.

Rétt í lokin, herra forseti, vegna þess að ég hef ekki mikinn tíma, gæti ég lýst því sem gerðist í heimabæ mínum um síðustu helgi. Þar er ekki um nein leyndarmál að ræða. Við höfum getað fylgst með því í fréttum hjá Verðbréfaþingi hvernig ýmsir hlutir þar hafa verið að gerast, kaup og sala á hlutabréfum þar sem fjárfestingarfélagið Afl, sem er að mér skilst í eigu Landsbankans og töluvert stór hluthafi fyrrverandi stóreignaraðili í Samherja, Þorsteinn Vilhjálmsson, hvernig kaupin þar áttu sér stað. Þessi fjárfestingarsjóður var sífellt að kaupa meira og meira. Að sjálfsögðu veit maður ekki hvað þar býr á bak við en ég varð þess áskynja og ég skildi vel þann titring og kvíða sem þar var.

Sem betur fer, herra forseti, snerist titringurinn upp í gleði þegar menn vissu að aðilar sem hafa sýnt mikinn kraft og dugnað við uppbyggingu Þormóðs ramma -- Sæbergs stóðu að baki kaupunum. Ég vil kalla þá heimaaðila, þó að erfitt sé að tala um heimaaðila og utanbæjarmenn þegar kemur að eign á hlutabréfum. Ég held að þar hafi mál sloppið fyrir horn á glæsilegan hátt. Þar voru aðilar sem voru ekki tilbúnir að missa stjórnina. Mér finnst ég hafa skynjað að heimaaðilar hafi aftur náð miklum yfirráðum og þeir eiga heiður skilinn fyrir það. Þetta segi ég, herra forseti, þótt ég hafi af málinu takmarkaðar fréttir, ekki nema með því að lesa af verðbréfasíðum ýmsum og tilkynningum frá Verðbréfaskráningu Íslands.

[12:15]

Svo get ég hins vegar haldið áfram, herra forseti, og talað um hvernig kvótinn hefur farið með önnur byggðarlög. Ég get alveg rætt það hvernig kvótinn hefur farið frá því ágæta byggðarlagi Hrísey, sem bar á góma áðan, og um erfiðleikana þar. Ég gæti vel ímyndað mér hvaða áhrif úthlutun á byggðakvóta til Hríseyjar mundi hafa á atvinnulífið þar og byggðarlagið, lítil eða mikil úthlutun, beina innspýtingu. Þess vegna segi ég, herra forseti, að ég er töluvert skotinn í hugmynd um byggðakvóta, um kvóta sem tengdur er sveitarfélögum. Það eru til aðilar sem hafa komið óorði á byggðakvóta en ég vona að nú verði ekki miklar deilur í úthlutuninni fram undan. Ég geri mér grein fyrir að margir fleiri en fá muni vilja fá þessi 2 þús. tonn sem hæstv. sjútvrh. ætlar að úthluta. Ég ítreka fyrri spurningar mínar sem ég hef lagt hér fram, og vænti þess að hæstv. sjútvrh. svari þeim á eftir áður en umræðu lýkur.

Herra forseti. Ég lagði mál mitt hér áðan upp frá því sem stendur í athugasemdum með frv. um vandamál nokkurra byggðarlaga sem hafa orðið fyrir því að kvóti hefur verið tekinn frá þeim. Inn í það kemur svo að sumir í hinu óskipta markaðskerfi, markaðslögmálum, benda á það að menn geta keypt fisk á markaði. Það er sannarlega rétt. Menn geta keypt fisk á markaði. En hvað skyldi gerast í því? Ég kem kannski betur að því í seinni ræðu en ég nefni rétt í lokin að ef fiskvinnslufyrirtæki, t.d. á Dalvík, þurfa að kaupa fisk á mörkuðum í Reykjavík --- gera menn sér grein fyrir því hver flutningskostnaðurinn er á hvert kíló af þessum fiski til vinnslu til þess að halda uppi atvinnu á Dalvík? Tökum dæmi. (Gripið fram í: Ertu að tala um þurrfrosinn?) Það kostar 14--20 kr. á kíló að flytja fisk sem keyptur er á markaði á höfuðborgarsvæðinu norður í land til vinnslu ef þannig spilast úr. Og það sem er alvarlegast, herra forseti, og ég vil nefna hér er hve mikið af þessum 14--20 kr. renna beint í skatt til ríkisins vegna þessa. Það er allt að helmingur, 7--10 kr. af flutningskostnaði af hverju kílói rennur í skatt til ríkisins vegna þessara flutninga. Ég vil bara nota tækifærið enn á ný og spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann telji að fiskvinnslufyrirtæki sem þurfa að búa við þessi háu flutningsgjöld séu samkeppnishæf við fyrirtæki í svipaðri starfsemi hér á höfuðborgarsvæðinu eða í næstu húsum við fiskmarkaði. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. skrifi spurningarnar niður og svari þeim á eftir. Að öðrum kosti verðum við hér eitthvað fram á kvöld. (Gripið fram í: Fram á nótt.)

Herra forseti. Rétt að lokum. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sagði áðan að við værum í þeim vanda í sjávarútvegi sem menn hefðu búið til sjálfir og vitnaði til ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna. Þetta er alveg hárrétt. Stærsti gallinn á því kvótakerfi sem við búum við er hvað kvóti er framseljanlegur. Um leið og hann er seldur frá einu byggðarlagi sem verður þannig gjaldfellt, eigur fólks hrynja í verði og lífsstarfið hverfur verður það til styrktar því byggðarlagi sem fær kvótann. Þess vegna verðum við á einhvern hátt, herra forseti, að taka þátt í því að reyna að skapa meiri sátt um þetta. Og ég segi alveg eins og er að ég held að það sé liður í þeirri sátt að meira af kvótanum --- ég ætla ekkert að úttala mig um það á þessum tveimur mínútum sem ég á eftir hér hvernig það yrði gert --- að byggðapottur, eða hvað við viljum kalla það, úr kvótakerfinu þurfi að aukast þar sem búnar verða til reglur sem verður sem mest sátt um, þar sem hægt verður að úthluta kvóta til ákveðinna, tiltekinna byggðarlaga til að snúa vörn í sókn í byggðamálum á fjölmörgum stöðum. Það er ákaflega brýnt og ég segi það, herra forseti, að lokum að ef menn vilja fara í skjótvirkar aðgerðir í byggðamálum til að lagfæra þann þjóðarvanda, ekki landsbyggðarvanda heldur þjóðarvanda, sem hefur verið undanfarin ár og hefur verið látinn liggja hjá stjórnvöldum og ekkert verið gert í eru tvö atriði sem verður hægt að grípa til sem mundu virka strax. Meira að segja hæstv. félmrh. hefur sagt að Framsfl. eða ríkisstjórnin hafi gleymt landsbyggðinni sinni sem er alveg hárrétt.

Í fyrsta lagi verður að stórlækka flutningsgjöld, eins og ég hef bent á á Alþingi, með því að lækka eða fella niður þá okur- og ofurskatta sem flutningsaðilar þurfa að greiða ríkissjóði fyrir hvert kíló eða hvern farm sem þeir flytja.

Í öðru lagi, herra forseti, með því að taka aflahlutdeildir, hugsanlega af viðbótum sem koma á næstu árum eða með því að fyrna einhverja ákveðna leið og koma með því inn, í örlítið stærri og meiri byggðapott heldur en hér er til úthlutunar eftir reglum sem sátt yrði um. Þá held ég að fljótlegt yrði að snúa vörn í sókn í byggðamálum og það hlýtur að vera meginverkefni Alþingis að finna flöt á þeim málum, hvernig hægt er að gera þetta. Ég hef nefnt þau tvö atriði sem ég tel að séu langfljótvirkust og vænti þess að hæstv. sjútvrh. svari spurningum mínum hér á eftir vegna þessa frv. og úthlutunarreglna sem eiga að gilda um það.