Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 12:21:47 (822)

2002-10-31 12:21:47# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[12:21]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns um þetta mikilvæga frv., þótt ekki sé verið að tala um stórar tölur í tonnum talið, benda á það að samkvæmt 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða var aðalmarkmið þeirra að nytjastofnarnir væru sameign íslensku þjóðarinnar og að samkvæmt öðrum greinum væri markmið að stuðla að nýtingu og verndun fiskstofnanna. Við getum sett spurningarmerki við hvernig til hefur tekist þar. Ég held að hæstv. sjútvrh. og menn hans hefðu átt að gaumgæfa þau mál betur og með gagnrýnni augum. En þetta átti líka að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Þetta átti að treysta eignir fólks í landinu og það er það sem allt of lítið hefur verið litið á. Menn tala um brottflutning fólks af landsbyggðinni, í huganum er horft á fjögurra manna fjölskyldu fara með hafurtask sitt út í gám og jafnvel suður. En það gleymist alltaf hvað þessi fjöskylda skilst við. Hún skilur jafnvel eftir sig ævistarfið, eignirnar sínar, íbúðarhúsnæðið sitt og við brottflutning hennar falla eignir annarra í verði. Þetta tengist þessu kerfi og ég mun leggja fram þáltill. þar sem sérstaklega verður hugað að því að verja eignir landsbyggðarfólks, einkum fasteignir þess. Hún er komin hér á dagskrá og verður tekin fyrir síðar í dag. Stóran hluta vandamálsins má rekja til kvótakerfisins.

Ég vil hins vegar benda á það frv. sem liggur fyrir í dag þar sem verið er að tala um 500 lestir af óslægðum botnfiski sem ráðherra hefur til ráðstöfunar á fiskveiðiárinu 2001/2002 til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Hér er þetta orð komið inn. Hér er það fyrst, finnst mér nánast, viðurkennt að það sé möguleiki að byggðarlög lendi í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Þegar lögin um stjórn fiskveiða voru sett átti m.a. að treysta atvinnu og byggð í landinu. Menn horfðu ekki upp á það þá. Mönnum datt ekki í hug að setja orðið vandi yfir þau lög og reiknuðu ekki með að það kæmi upp einhver vandi. En kerfið hefur allt saman spilað þennan óskapnað upp og nú er bara hnípin þjóð í vanda hringinn í kringum landið.

En ég fagna því að hér á að ráðstafa þessum 500 tonnum. Það stóð til að gera á síðasta kvótaári en varð því miður ekki af. Það er gott að þetta verði fært á milli ára og notað þá á þessu ári til að styrkja þær byggðir sem lent hafa í vanda.

Byggðastofnun hefur úthlutað 1.500 tonnum sem var síðan ráðstafað til fimm ára og sú úthlutun hefur gefið góða raun. Þetta er ekki há prósenta af þeim fiskveiðiheimildum sem stærstu handhafarnir hafa en þetta hafa verið plástrar á þau sár í þeim blæðandi byggðarlögum þar sem allt hefur jafnvel verið komið svo á vonarvöl að við landbresti lá. Hér hafa verið nefnd sveitarfélög og auðvitað verður umræða eins og hér er að vera opinská í því. Ég nefni stað eins og Þingeyri sem var búinn að vera í fréttum út af vandamálum sínum í ein tvö ár og menn máttu þar vart róa til fiskjar. Það er komið að því vandamáli með þennan byggðakvóta og Ísafjarðarbær --- þá á ég við Þingeyri, Flateyri og Suðureyri --- leggur fram byggðakvóta sinn til atvinnuuppbyggingar á Þingeyri, og hvað gerist? Það bregður svo við að maður heyrir ekki Þingeyri nefnda í neikvæðri merkingu meira. Þar er verið að landa fiski, 100--150 tonnum í hverri viku. Þetta hefur mikil áhrif.

Ég bendi á stað eins og Hrísey. Ástand var þar nokkuð gott rétt áður en að þessari úthlutun kom. Þar var 4 þús. tonna kvóti. Hann fer nánast leiftursnöggt niður í 500 tonn. Þar voru 277 íbúar. Þeim fækkaði snögglega. Auðvitað gerist það þegar veiðiheimildir fara af stöðunum. Byggðastofnun gaf út skýrslu um áhrif kvótakerfisins á íbúaþróun á landsbyggðinni og það er beint samhengi þar á milli. Þaðan sem kvótinn fer, þar missir fólkið vinnu. Það fer, eignir þess falla í verði og þetta þarf að bæta fólki.

En þeir börðu hausnum við steininn um það mál man ég, á sínum tíma, hæstv. sjútvrh. --- og ég man líka að hv. formaður Framsfl. var sama sinnis og skrifaði ég grein um það í hið ágæta blað Morgunblaðið til að rökstyðja þetta.

Þetta hefur víðar komið illa við. Þetta hefur komið illa við á Vestfjörðum. Það eru núna vandræði í Sandgerði og á fleiri stöðum. Ég bendi sérstaklega á norðausturhornið, stað eins og Raufarhöfn og byggðirnar þar. Það þarf víða að taka á þessum málum.

Ég tek undir með hv. 3. þm. Vesturl. Jóhanni Ársælssyni sem sagði að meðan kvótakerfið virkar eins og það hefur virkað, að veiðiheimildirnar safnast á færri og færri hendur, er auðvitað vá fyrir dyrum í mörgum sjávarplássum. Og ég segi fyrir mína parta að þegar svo er komið að nokkrir aðilar geta í ræðu eða riti sagt í fjölmiðlum: Það þarf að fækka rækjuverksmiðjum um þetta eða hitt og það setur ugg og ótta að fólki á þessum stöðum bara við að heyra orð þessara manna er illa komið. Það var aldrei markmið kvótakerfisins að hefja menn til slíkra valda að þeir gætu, bara með orðum sínum einum upphaflega og síðan athöfnum, sett heilu byggðarlögin í mikla óvissu. Slíkt hefur aldrei gerst í Íslandssögunni. Menn gátu óttast héraðshöfðingja áður sem riðu um héruð með ófriði og vopnaskaki en aldrei bjuggust menn við svona hlutum. Hverjar eru afleiðingarnar? Fólkið missir lifibrauðið. Fólkið flyst brott og fasteignir þess rýrna og á því máli tekur þáltill. mín sem hér verður rædd í dag.

Veiðiheimildirnar áttu ekki að tryggja eignir útgerðarmanna. Þær áttu að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Hér hafa verið nefnd dæmi og hv. 4. þm. Vestf., Guðjón Arnar Kristjánsson, sagði okkur frá litlu dæmi úr sinni heimabyggð þar sem auglýst var eftir húsi og 23 eða 27 aðilar vildu selja. Ef við lítum sérstaklega á Ísafjörð og niðurstöðuna í þeirri skýrslu Byggðastofnunar sem ég nefndi áðan, um áhrif kvótakerfisins á búferlaflutning, var sá staður sterkur, og hv. 4. þm. Vestf. þekkir það. Hann tók þátt í því sjálfur að byggja hann upp. Ísafjörður hafði 22 þús. tonn fyrir 3--4 árum og þetta minnkaði leiftursnöggt niður í um 10 þús. tonn. Auðvitað hefur þetta áhrif á eignir fólks á þessum stöðum. Auðvitað er þetta m.a. ástæðan fyrir því að 27 hús eru auglýst til sölu. Þau hefðu kannski verið fimm ef þetta mikla áfall hefði ekki komið, kannski ekkert, vonandi ekkert.

[12:30]

Margir þingmenn hafa rætt um kvótakerfið og óvissuna sem það hefur í för og ég tek undir það allt. Í svari við fyrirspurn sem ég bar fram til félmrh. á síðasta þingi um hvort opinberu fé Íbúðalánasjóðs hefði verið ráðstafað til bygginga, nýbygginga, komu fram mjög daprar tölur og má lesa þær beint í samræmi við kvótakerfið. Til eru staðir eins og t.d. Seyðisfjörður þar sem ekkert er byggt árin 1990--2000.

Hv. 3. þm. Norðurl. v., Kristján L. Möller, nefndi áðan hvað hefði verið að gerast í heimabæ hans, Siglufirði, síðustu daga þar sem ég veit að fólk hefur óttast mjög um hvernig málum reiddi af. Nógu viðkvæmar voru þær byggðir fyrir. Á tíu ára tímabili hefur ekki verið lánað til Siglufjarðar nema 27 milljónir. Á sama tíma lána opinberir sjóðir til íbúðabygginga í Kópavogi fyrir 2,2 milljarða. Kvótakerfið hefur engin áhrif á höfuðborgarsvæðinu. Öll umsvif í kringum fiskveiðar og sjávarútveg fara í gegnum höfuðborgarsvæðið hvort sem fiskurinn er veiddur frá Ísafirði, Fáskrúðsfirði, Raufarhöfn eða Vestmannaeyjum, það breytir engu. Öll hin jákvæðu áhrif fiskveiðanna fara í gegnum hagkerfi höfuðborgarinnar og verja eignir fólks þar. Það sama er ekki að segja um landsbyggðina.

Herra forseti. Ég vil taka undir allt sem sagt hefur verið hér í dag um þessi mál. Grundvallaratriðið er að verja eignir landsbyggðarfólks.