Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 12:32:21 (823)

2002-10-31 12:32:21# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[12:32]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ljóst er að hér er á ferðinni frv., ekki stórt í sniðum, til að bæta við bót eða plástri á plástur, frv. af gerðinni smáskammtalækningar, ef gefa ætti þessu eitthvert nafn. Til samræmis við það hefur oft verið tekin til samlíkingar stagbætt flík. Það er það sem kerfið er að verða, hæstv. sjútvrh.

Annað er líka athyglisvert þegar rætt hefur verið um þetta mál sem hefur snúist að sjálfsögðu um fiskveiðistjórnarkerfið, að hér í salnum hafa aðeins verið landsbyggðarmenn ásamt sjútvrh. --- og nú bætist loks í hópinn eftir rúmlega klukkutíma umræðu einn af stjórnarliðunum frá minni stjórnarflokknum, hv. þm. Hjálmar Árnason, og ég leyfi mér að bjóða hann velkominn í salinn. Þetta er eftirtektarvert. Og aðeins einn ráðherra, hæstv. sjútvrh., ræðir þessi mál. Það sýnir áhugann á málinu sem ég tel að ætti að varða grunnatriðin hjá þjóðinni.

Mér finnst eðlilegt að lög þurfi breytinga við þó að búið sé að gera breytingar á jafnvel flestum greinum laganna eftir aðstæðum. En fiskveiðistjórnarkerfið þarf að vera þannig að það bjóði upp á stöðugleika. Þar vantar mikið á. --- Og nú fór hv. þm. Hjálmar Árnason úr salnum.

Nýjustu dæmin um kvótaflutninga úr byggðarlögum hafa vakið ótta byggða sem trúðu því að hlutur þeirra væri tryggður. Þar nefni ég til Sandgerði og Grindavík, þá miklu útgerðarbæi. Þar er kominn uggur og ótti í menn vegna þess sem er að gerast. Þeir eru að missa frá sér aflaheimildirnar í því formi að einstaklingar eru að selja, hætta og flytja úr byggðunum. Þetta er það sem er að gerast. Þetta kallast hagræðing. Þetta er hagræðing til hörmunga fyrir ótrúlega marga. Það er niðurstaða mín. Útkoman úr kerfinu er hagræðing til hörmunga.

Það er rétt að spyrja um leið hæstv. sjútvrh. í tilefni af frv.: Hverjir eiga að fá? Hvernig á að framkvæma? Ég vona að hæstv. sjútvrh. láti svo lítið að svara því hverjir eiga að fá og hvernig á að framkvæma.

Fróðlegt er, herra forseti, að fara yfir og skoða árangur af stjórn fiskveiða sl. 10--12 ár. Árangurinn er sá að yfirráð yfir meginhluta kvótans eru komin í hendur örfárra aðila að stærstum hluta. Það er hagræðing sem leiðir til hörmunga. Staðreyndin er sú að sjósókn á stórum skipum sem gerð eru út hefur ekki verið meiri í annan tíma á Íslandi. En því miður hafa dökku hlutirnir sem fylgja fiskveiðistjórnarkerfinu, þ.e. brottkastið, nánast ekkert minnkað. Það eina sem gert er til bóta er að menn reyna að koma aflanum í land í formi annarra tegunda. Ég fagna því ef hver einasti fiskur sem tekinn er í veiðarfæri kemst á land, en því miður er brottkast vel við lýði.

Annar dökkur blettur á því kerfi sem við búum við er að stór hluti sjómanna er orðinn leiguliðar stórkvótahafanna. Einn ljóðurinn enn á kerfinu er ofveiði á ákveðnum tegundum og síðan það að úthlutaður afli hefur heldur ekki náðst í öðrum tegundum sem segir okkur að eitthvað er að fiskveiðiráðgjöfinni. Þar þarf einnig að taka á.

Einnig má spyrja, virðulegur forseti: Hefur fiskveiðistjórnarstefnan aukið vernd fiskstofnanna? Ja, það er mikill vandi að sjá að svo hafi orðið. Ekki get ég séð það þó svo að ég viðurkenni alveg að nauðsyn er á að stjórna fiskveiðum. Það er auðvitað nauðsyn á að ákvarða hámarksafla úr hverjum stofni. Og það er líka nauðsynlegt að búa til viðunandi leikreglur. En ekki er hægt að sjá annað en að framkvæmd veiðistjórnarinnar hafi leitt til vaxandi úlfúðar og það sést berlega á því hvernig staðan er í dag. Það hefur leitt til úlfúðar, eignaupptöku, eyðingar byggða og fólksflótta af landsbyggð.

Rétt er að taka eitt dæmi sem er mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Ég var staddur á Suðureyri fyrir skömmu, fór þar að sjálfsögðu niður að höfn, niður að lífæðinni, hitti þar sjómann sem var að taka bát sinn til aðhlynningar og við tókum tal saman. Hann tjáði mér að hann væri að hugleiða að reyna að komast í burtu af staðnum, og hugðist fara til Færeyja ef hann kæmist þar inn í kerfið, fara til Færeyja frá Íslandi. Áður var það þannig að Færeyingar komu til Íslands til þess að taka þátt í fiskveiðunum hér við land. En í samtali okkar útskýrði hann á einfaldan máta fyrir mér hvaða afleiðingar hafa orðið af kerfinu á þeim stað sem ég nefndi.

Í samtalinu kom þar að að ég spurði: Þú átt hér húsnæði, er það ekki? Hann kvað jú við því og benti mér upp í hlíðina þar sem var glæsilegt 170 fermetra einbýlishús á tveimur hæðum, mjög fallegt hús á að líta. Ég giskaði strax á að húsnæðið mundi kosta 32--35 milljónir ef það væri í Reykjavík, ég hef komist að því að það er ekki of hátt mat. En maðurinn sem ég ræddi við sagði mér þegar ég var að giska á 6--7 milljónir til að vera nú í samræmi við það sem ég hélt að ég vissi um, þá sagðist hann þakka fyrir ef hann fengi 3--4 milljónir fyrir hús sem er allt að 35 millj. kr. virði á höfuðborgarsvæðinu. Þetta, virðulegur forseti, er afleiðing af því kerfi sem menn hampa. Þetta er nákvæmlega hagræðing til hörmunga fyrir einstaklingana sem búa í hinni dreifðu byggð.

Baráttan sem við höfum verið að ræða hér í dag er baráttan gegn fiskveiðistjórnarkerfi sem virkar ekki. Þetta er kerfi sem hefur leitt til þess að ástand í atvinnumálum í hinni dreifðu byggð hefur leitt til fólksflótta. Það er hörmung að þurfa að rifja slíka hluti sýknt og heilagt upp, en svona er staðan nákvæmlega.

Það stjórnkerfi fiskveiða sem við erum að fjalla um hefur kallað á kvótabrask, stöðugt kvótabrask. Fínni orð um þessa sömu aðgerð eru ,,viðskipti með aflaheimildir``. Virðulegur forseti. Ég blæs á allt svona lagað þar sem verið er að fegra raunverulegar gjörðir með fallegum orðum. Verið er að hossa sumum en leiða erfiðleika yfir aðra. Þetta er það sem gert er með lögum. Um brask og siðleysi er að ræða í þessum málum en það er stuðst við lög, því miður.

Hvað er að gerast? Menn eru að selja sameign þjóðarinnar. Menn komast upp með að leggja skipum, segja upp áhöfnum, græða á kvótasölu, veðsetja sameign þjóðarinnar og svo það sem kannski orðið er hjá dómstólum að þar hefur verið dæmt þannig að menn eru að erfa sameign þjóðarinnar. Þetta vitum við, þetta gerist fyrir opnum tjöldum, og þeir sem græða hæla sér af því án þess að löggjafinn reyni að grípa inn í atburðarásina. Menn tala um kvótaeign sína, fara með hana eins og þeim hentar án nokkurra afskipta.

Ef ég man rétt var þetta ekki markmiðið með lögunum um fiskveiðistjórn. Fiskveiðistjórnin átti að gera það að verkum að lögin áttu að vernda fiskstofnana og leiða til hagkvæmni. En hagræðingin, hagkvæmnin sem menn tala um hefur leitt til hörmunga, eins og ég tók dæmi af rétt áðan fyrr í ræðu minni og þetta dæmi má heimfæra upp á fjölmargar byggðir.

Það væri kannski rétt að benda mönnum á að verið er að sýna núna kvikmynd Baltasars Kormáks eftir leikriti Ólafs Hauks Símonarsonar. Kvikmyndin heitir Hafið. Sú kvikmynd ætti að vera tekin til sýningar fyrir hvert einasta mannsbarn á Íslandi. Af hverju segi ég það? Ég segi þetta vegna þess að þema myndarinnar eða það sem myndin er að segja okkur er nákvæmlega það sem skáldið Ólafur Haukur Símonarson sá fram á fyrir tólf árum að mundi verða niðurstaðan fyrir íslensku þjóðina.

[12:45]

Það er ástæða til þess að nefna þetta vegna þess að það sem stjórnvöld á Íslandi hafa sagt að væri bábilja og hégómi er leitt fram í formi kvikmyndar sem er ákaflega vel leikin og sýnir í stórum dráttum afleiðingar fiskveiðistjórnkerfisins.

Herra forseti. Ég get flutt langt mál um fiskveiðistjórnkerfið. Ég gæti talað töluvert mikið um það sem er verið að gera nákvæmlega í því frv. sem hér liggur fyrir vegna þess að ég er búinn að standa á bryggjunni og ræða við sjómenn á Vestfjörðum. Þeir hafa sýnt mér fram á mismununina sem varð við þessar úthlutanir sem tengdar eru þessu frv. Einstökum þingmönnum er ætlað að framkvæma þetta og þessir einstöku þingmenn hafa lofað sjómönnum að þeir muni fá sín 5 tonn eða sín 10 tonn sem þeir muni úthluta. Þetta eru alvarlegir hlutir.

Virðulegur forseti. Meginmálið er að núverandi fiskveiðistjórnkerfi er orðin ófreskja sem íslensk þjóð getur ekki unað við. Aðeins þeir sem geta sölsað undir sig kvóta eru ánægðir með kerfið. Þeir eru hinir raunverulegu sægreifar með leiguliða á sinni jötu sem þeir skammta eftir geðþótta hverju sinni.

Virðulegur forseti. Öllu því braski sem ég hef vikið orðum að fylgir löglegt undanskot frá skatti vegna þess að ef sjómennirnir fengju hlut úr raunverulegu aflaverðmæti mundi eðlilegt hlutfall tekna skila sér til ríkissjóðs. En í skjóli hinna rúmu heimilda sem eru í kerfinu á millifærslu á tapi hjá útvegsfyrirtækjum þá er ríkissjóður enn að tapa þó svo að hæstv. ríkisstjórn reyni ekki að skilja það.

Herra forseti. Ég geld varhuga við því kerfi sem etur saman stéttum með mismunun innan þeirra, samanber smábátakerfið. Það er búið að skipta smábátaeigendum eða smábátunum upp í mismunandi kerfi sem eru núna að deila meira og minna um hver fær hvað á hvern hátt.

Herra forseti. Ég geld varhuga við því kerfi sem er að gera eignir fólks verðlausar á landsbyggðinni.

Herra forseti. Ég geld varhuga við því kerfi sem er orsök eyðingar sjávarþorpa og bæja á mörgum stöðum á landsbyggðinni. Og nú er farið að kreppa að á Suðurnesjum eins og ég vitnaði í hér áður í máli mínu. Ég minnist orða Sigurðar Vals Ásbjarnarsonar, bæjarstjóra í Sandgerði, í grein sem hann ritaði fyrir skömmu síðan --- hann er maður sem stutt hefur kerfið --- um að nú væri hætta á ferðum. Það er hætta á ferðum í sjávarbyggðum eins og Raufarhöfn þegar vinnan þar byggist aðeins á Rússafiski. Vinnan þar byggist á Rússafiski. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum síðan?

Ég get tekið dæmi af mörgum stöðum öðrum og ég nefni byggðirnar á Vestfjörðum sem hafa orðið að horfa á eftir tugum þúsunda tonna, þ.e. ef ég legg það saman, horfa á eftir tugum þúsunda tonna úr byggðarlögunum.

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller vitnaði til ferðar fjárln. um Norðausturland fyrir skömmu síðan og sagði frá því að þar hefði sveitarstjóri verið að hæla sér af því að sveitarfélagið ætti kvóta. Þegar sá sem hér stendur var í bæjarstjórn á Akranesi 1988 var þetta dæmi allt saman að byrja, þ.e. 1989 og 1990. Og vegna þess að bærinn var að selja eign sína í fyrirtæki sem átti verulegar fiskveiðiheimildir þá lagði ég til að bærinn keypti fyrir sinn hlut aflaheimildir og hefði á staðnum til þess að deila út því að ég taldi að það væri öruggt að þessi eign væri góð fjárfesting. Hvað kom þá í ljós? Menn féllust ekki á þessa tillögu sem við jafnaðarmennirnir í bæjarstjórninni á Akranesi fluttum, heldur var henni skotið til umsagnar sérfræðinga sem gáfu þá niðurstöðu að aflaverðmæti kvótans þá væri í algeru hámarki og ekki kæmi til greina að fjárfesta á þennan hátt. Verðið hefur 25-faldast síðan þá. En menn vildu ekki gera þetta.

Hefði verið farið að ráði jafnaðarmannanna sem voru í sveitarstjórn á árunum frá 1986 fram til 1994 í heimabæ mínum Akranesi þá væri staðan sú að menn þyrftu ekkert að velta því fyrir sér í dag hvort þeir ætluðu að steypa eða malbika eina götu eða tvær eða hvort þeir ætluðu að fara í fráveitumál af fullum krafti. Menn gætu það í krafti þess að þeir ættu næga fjármuni. En því ráði var hafnað.