Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 13:49:45 (828)

2002-10-31 13:49:45# 128. lþ. 19.94 fundur 199#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[13:49]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það tekur auðvitað engu tali að ætla sér að ræða viðamesta vandamál sem við eigum við að etja, heilbrigðismálin, í því ani sem hér er. Ég hefði haldið að 1. varaforseti á Alþingi hefði getað hagað því öðruvísi.

Það er mála sannast að þessi mál eru í kreppu. Mér er nær að halda að heilbrigðiskerfið okkar sé næstum komið í þrot eða sem næst á heljarþröm. Hins vegar er ekki von á tillögum til úrbóta meðan menn játa ekki staðreyndirnar. Það kemur m.a. fram í því óraunsæi að ár eftir ár afgreiða menn hér fjárlög sem sýnir sig að eru fullkomlega óraunsæ. Auðvitað þarf að borga brúsann þegar þar að kemur eftir alls kyns iðraþrautir þar sem saumað er að sjálfum sjúklingunum.

Hér þarf, eins og frummælandi gat um, að taka til höndum heldur hressilega. Ég legg til við hæstv. heilbrrh., sem ég veit að er velviljaður maður, að hann skipi nefnd færustu sérfræðinga á heilbrigðissviði og færustu sérfræðinga í rekstri fyrirtækja, eins og 10--12 manna, og gefi henni hálft ár eða ár. Að því búnu yrði sett stéttarþing heilbrigðiskerfisins þar sem niðurstöður nefndarinnar lægju fyrir. Þær yrðu metnar.

Ef svo skyldi fara að það fyrirkomulag sem við kæmum okkur saman um reyndist gjaldgetu ríkissjóðs ofviða þá þyrftu þeir sem efni hafa að borga mismuninn. Það vill nefnilega þannig til að í þessu þjóðfélagi eru til nógir andskotans peningar.