Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 13:51:55 (829)

2002-10-31 13:51:55# 128. lþ. 19.94 fundur 199#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Heilsugæslan er í kreppu. Læknaskortur er viðvarandi og biðin eftir þjónustu eru dagar og jafnvel vikur. Fjöldi fólks nýtir ekki frumheilsugæsluna og fer beint til sérfræðinga og sjúkdómsgreinir þannig sig sjálft. Við vitum að það er bæði dýrt fyrir skattgreiðendur og dýrt fyrir sjúklinginn. Þetta er afleitt. Við vitum að það er dýrara að fara til sérfræðings en á heilsugæslustöðina. Ég verð að segja að mig óar við þeirri framtíðarsýn sem hæstv. heilbrrh. lýsti hér, ef farið verður að þeim kröfum lækna sem nú eru uppi.

Hér höfum við rætt ástandið á Suðurnesjum. Ég vil minna á að í Reykjavík er stórt hverfi sem ekki hefur haft nokkra heilsugæslustöð frá upphafi, þ.e. Voga- og Heimahverfið.

Nú er það svo, herra forseti, að aðgerðaleysi stjórnvalda undanfarin ár á sök á þessu ástandi. Stjórnvöld hafa hvorki tekið á málefnum heilsugæslunnar né sérfræðilæknanna. Auðvitað verður að leysa þetta en það má aldrei gera á þann hátt að sjúklingum verði á nokkurn hátt mismunað. Jafnræði verður að ríkja gagnvart þjónustunni og þeir sem hafa rýmri fjárráð mega aldrei vera í þeirri aðstöðu að geta borgað sig fram fyrir.

Heilsugæslulæknar verða að fá svipaðan sess í heilbrigðisþjónustunni og þeir læknar sem helga sig sjúkrahúsþjónustu. Virðingu heilsugæslunnar verður að endurreisa svo að hún fái þjónað því mikilvæga hlutverki sem frumheilsugæslan er. E.t.v. mætti hugsa sér að stjórnvöld tækju í taumana og veittu námsstyrki, t.d. til framhaldsnáms þeirra lækna sem vilja sinna heimilislækningum sérstaklega.