Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 13:54:00 (830)

2002-10-31 13:54:00# 128. lþ. 19.94 fundur 199#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[13:54]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Við höfum lengi litið heimilislækna og þjónustu heilsugæslunnar öðrum augum en aðra þjónustu heilbrigðiskerfisins, öðrum augum en þá þjónustu sem aðrir sérfræðingar veita. Heimilislæknar eru kjölfesta heilbrigðiskerfisins og njóta meiri velvilja en aðrir sérfræðilæknar að því er ég held. Störf þeirra og starfsumhverfi, eins og við þekkjum það, skapar þeim mjög náið samband, ekki bara við sjúklinga sína heldur líka fjölskyldur þeirra og heimili. Yfirsýnin og samhæfingin sem þeim er ætlað að tryggja er nokkuð sem heilbrigðiskerfið getur ekki verið án.

Mörg okkar eiga hins vegar mjög bágt með að sjá þakklátt starf heimilislæknis unnið á grundvelli krónutölu fyrir hvert unnið verk eða unninn verkþátt. Þvert á móti viljum við sjá aukna yfirsýn heilsugæslunnar við aðstæður og vandamál einstaklinga og fjölskyldna, aukna þverfaglega þjónustu og samstarf heilbrigðisstarfsmanna á heilsugæslustöðvum og eflingu hvers konar leitar- og forvarnastarfs undir forustu heimilislækna. Umræðan um þessa þætti, um aukna og bætta þjónustu, hefur ekki verið sem skyldi. Umræðan um kjör lækna og rekstrarform hefur yfirskyggt allt annað og hefur að nokkru leyti staðið þróuninni fyrir þrifum.

Í kjaralegu tilliti standa heimilislæknum vissulega ýmsir kostir til boða. Einn er sá að starfa hjá sjálfum sér, einn eða fleiri, á grundvelli þjónustusamnings við ríkið. Annar kostur er sá að vera launþegi á ríkisreknum heilsugæslustöðvum og samkvæmt nýgengnum úrskurði kjaranefndar geta heimilislæknar í dag valið á milli fastra launa eingöngu eða fastra launa og afkastatengdra greiðslna að hluta. Eins og fram hefur komið kostar sá úrskurður 400 millj. sem hlýtur að teljast dágóð kjarabót fyrir þá u.þ.b. 190 menn sem eiga hlut í þeirri fjárhæð.

Herra forseti. Heimilislæknar bera sem sérfræðingar og fagmenn mjög ríka ábyrgð og skyldur gagnvart þeim sem leita eftir þjónustu þeirra. Þeir bera ábyrgð gagnvart sjúklingum. Ríkisvaldið ber ekki alla ábyrgðina. Við hljótum að gera þær kröfur að heimilislæknar kasti ekki frá sér þessari ábyrgð né því trausti sem þarf að ríkja á milli fagmanns og sjúklings. Við hljótum að hvetja til þess að þeir endurskoði afstöðu sína og dragi uppsagnir sínar til baka.