Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:02:50 (834)

2002-10-31 14:02:50# 128. lþ. 19.94 fundur 199#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:02]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það er grafalvarlegt mál ef 16.000 manna byggðarlag stendur skyndilega uppi án lækna. Það er neyðarástand og á því verður að taka. Um það snýst málið og það snýst um tvennt. Annars vegar er um að ræða kjarabaráttu þar sem læknar vilja ekki una þeim kjörum sem Kjaradómur ætlar þeim. Hins vegar snýst það um nýtt rekstrarform eins og hér hefur komið fram. Um þetta hefur ekki náðst sátt. Því grípa læknar til uppsagna og almenningur á Suðurnesjum situr eftir læknislaus. Það er ólíðandi.

Störf lækna eru erfið og þau eru krefjandi og fyrir það á að borga góð laun. Á það sjónarmið féllst Kjaradómur með því að hækka laun heilsugæslulækna um tvær millj. kr. á ári, eða í um 1.300 þús. kr. á mánuði. Við hljótum því að spyrja hversu langt samfélagið er tilbúið til þess að ganga til móts við launakröfur lækna og rekstrarkröfur lækna. Ég spyr hæstv. frummælanda: Hversu langt er hann til í að ganga í þeim efnum?

Auðvitað hafa læknar afbragðsgóða samningsstöðu því brotthvarf þeirra skapar neyðarástand. Hverfi þessir læknar munu aðrir læknar ekki fylla skörðin því stéttin stendur þétt saman. Það er auðvitað ábyrgðarleysi að skilja stórt samfélag eftir án lækna. Þetta neyðarástand sem skapast hefur er á ábyrgð deiluaðila. Sjaldan veldur einn þá tveir deila.

Ég skora á hæstv. heilbrrh. og þykist vita um góðan vilja hans til að leysa þetta mál. Ég skora á hæstv. fjmrh. að leggjast á árar með hæstv. heilbrrh. því auðvitað kann að vanta fé. En síðast en ekki síst skora ég á læknana að axla ábyrgð, fresta aðgerðum sínum og setjast að samningaborði og sjá hvað er í spilunum þannig að almenningur á Suðurnesjum verði ekki skilinn eftir læknalaus. Þeirra er ábyrgðin jafnt sem yfirvalda.