Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:05:18 (835)

2002-10-31 14:05:18# 128. lþ. 19.94 fundur 199#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svörin. Meginlínan í svörum hans var sú að hann vonaði hið besta. Ég vil hins vegar segja við hann: Vertu viðbúinn hinu versta. Því miður fannst mér hæstv. ráðherra falla í þá gryfju að leggja málið hér upp eins og um hefðbundna kjaradeilu væri að ræða. Það er ekki svo.

Menn geta notað orðaleppa að vild og talað um tvískiptingu kerfisins, einkarekstur, þjónustusamninga og hvað eina. Staðreyndin er hins vegar sú að þjónusta í heilbrigðiskerfinu í dag er ekki tvískipt, hún er ekki þrískipt, hún er margskipt. Staðreynd er að einkarekstur í heilsugæslugeiranum er til staðar. Og staðreyndin er að ef ekkert er að gert, eins og hæstv. ráðherra leggur hér upp með að minni hyggju, þá mun þessi einkarekstur stóraukast, ekki kannski kalla á útgjöld ráðuneytis, en kalla á stóraukin útgjöld skjólstæðinganna, fólksins í landinu.

Það fer ekki fram hjá nokkrum manni að læknar í Hafnarfirði hafa lýst því yfir að þeir muni opna sínar prívatstofur, þeir hafa til þess rétt samkvæmt gildandi lögum og það er fólkið, skjólstæðingarnir, sem þurfa að borga brúsann. Aðgerðaleysi í málinu kallar því á raunverulega tvískiptingu, ekki í kerfinu sjálfu, hún er til staðar, heldur gagnvart fólkinu, sjúklingunum. Og það er versta niðurstaðan af öllu.

Þess vegna hef ég sagt, herra forseti, að okkur er brýn nauðsyn á, eftir að stjórnvöld hafa verið hér aðgerðalítil eða laus um vandamálið sem við hefur blasað, að við fetum nýja slóð. Þess vegna hef ég opnað á það að menn skoði nýjar lausnir og geri heilsugæsluna þannig úr garði að hún tryggi ekki eingöngu kyrr kjör, heldur að við bjóðum fólki upp á þá þjónustu í heilsugæslunni sem lög standa til og við tölum öll um í raun og sanni. Við eigum að efla hana, tala ekki aðeins um það, heldur gera eitthvað í því.