Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:07:31 (836)

2002-10-31 14:07:31# 128. lþ. 19.94 fundur 199#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:07]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta alvarlega og flókna mál. Ég vil endurtaka nokkur atriði sem fram hafa komið í umræðunni og taka fram að á fjölmörgum fundum sem ég hef setið með talsmönnum heilsugæslulæknafélagsins um kjör þeirra hafa þeir sett fram eina úrslitakröfu, að fá að opna einkastofur og senda reikninga á Tryggingastofnun ríkisins. Ég hef hafnað þessu eins og fram hefur komið. Ég hef boðið upp á marga möguleika fyrir læknana undir hatti heilsugæslunnar og til að varðveita heilsugæsluhugsunina sem ég hef ekki orðið var við annað en að samstaða sé um. Ég hef boðið læknunum þjónustusamninga. Ég hef boðist til að gefa þeim kost á að bjóða í reksturinn. Ég hef opnað á þann möguleika að þeir fari inn á heimilislæknasamning að einhverju leyti eins og fram kom áðan í umræðunni, en undir hatti heilsugæslunnar.

Öllum tilboðum af þessu tagi hefur verið neitað. Heilsugæslulæknarnir hafa ekki verið til viðtals um annað en kröfuna um að fá að opna einkastofur. Hér segja hv. ræðumenn: Tvískiptingin er fyrir hendi. Það er rétt að nokkru leyti, en þó hún sé fyrir hendi þá er ég ekki tilbúinn til þess að auka hana.

Við höfum verið gagnrýnd harðlega í skýrslum Ríkisendurskoðunar fyrir samningana við sérfræðinga og hvernig hefur verið haldið utan um það mál. Ég er ekki tilbúinn til þess að auka við þann þátt eins og stendur. Hins vegar hef ég boðist til að ræða fjölmarga aðra möguleika undir hatti heilsugæslunnar. Ég skora á þá lækna sem hlut eiga að máli að fresta uppsögnum sínum og setjast niður með okkur eins og við höfum verið að ræða, en halda sig ekki alveg fast við eina úrslitakröfu eins og þeir hafa gert frá upphafi.