Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:10:26 (837)

2002-10-31 14:10:26# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frumvarp það sem hér er til umræðu, stjfrv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, felur í sér leiðréttingu eða nokkurs konar framhaldsheimild á að nýta aflaheimildir sem úthlutað var á fiskveiðiárinu 2001--2002, annars vegar til tilrauna með áframeldi á þorski og ekki voru nýttar á því ári og hins vegar 500 lestir af óslægðum botnfiski sem ráðherra hafði til ráðstöfunar á fiskveiðiárinu 2001--2002, til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samráttar í sjávarútvegi og ekki var úthlutað á því ári. Frumvarpið felur því í sér að heimila að aflaheimildunum verði ráðstafað á næsta fiskveiðiári til viðbótar við þær heimildar sem annars var búið að gefa.

Frumvarpið er í sjálfu sér ekki stórt að öðru leyti en því að þetta er framkvæmd á heildarstefnunni í fiskveiðimálum og því hvernig þjóðin upplifir hana og má búa við.

Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða er kveðið svo á, með leyfi forseta:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Þetta er sú grunnlagagrein sem stjórn fiskveiða byggir á, en ég held að að flestra dómi sé hún sú sem mest er sniðgengin. Raunin er sú að stjórnvöld hafa æ ofan í æ þurft að bæta göt á hinni hripleku stefnu sinni þegar þau sjá að í fullkomið óefni er komið á einstaka stöðum. Aflaheimildir hafa verið að þjappast saman, gengið kaupum og sölum, þjappast saman á hendur örfárra aðila og þar ráða ferð þeir sem hafa fjármagn til að kaupa upp aflaheimildir. Þeir sem ekki hafa fjármagnið en þörfina fyrir þær verða að láta undan.

Við þekkjum þessa sögu. Við þekkjum söguna um fiskveiðiheimildirnar frá Vestfjörðum, Norðurlandi og vítt og breitt um landið eru þær að færast af höndum heimafólks yfir í eignarhöld stórfyrirtækja, þannig að nú er meginhluti aflaheimilda kominn á hendur fjögurra, fimm eða sex aðila og stefnt að enn meiri fækkun.

Þetta er sú alvarlega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir, herra forseti. Þetta frv. er bara ein tilraunin enn til að bæta á fátæklegan og vesælan hátt eitt af mörgum götum sem eru á fiskveiðistjórnarlögunum í framkvæmd.

Það hefði t.d. verið sjónarmið ef hér væri verið að veita sérstakar fiskveiðiheimildir til vistvænna veiða, en vistvænar veiðar njóta engrar sérstakrar stöðu við stjórn fiskveiða eða ráðstöfun á veiðiheimildum. En þó getur hver sá háttur sem hafður er á hinum ýmsu fiskveiðiaðferðum haft einmitt mjög skaðleg áhrif á vistkerfi sjávarins og fiskstofnana. Þess sér hvergi stað í þessu annars götótta fiskveiðistjórnarkerfi eða fiskveiðistjórnarlögum.

[14:15]

Það er verið að úthluta þessu sem byggðakvótum. Vafalaust og örugglega er það svo að hin litla úthlutun á einstaka staði er til hjálpar á viðkomandi stöðum. En engu að síður er þetta aðeins plástur á margsært fiskveiðistjórnarkerfi sem er reyndar opin und á samfélagi okkar.

Það væri fróðlegt, herra forseti, að fá upplýsingar um ráðstöfun á fiskveiðiheimildum samkvæmt þessum byggðakvótum til byggðarlaga á sl. fiskveiðiári. Byggðakvóti hefur verið veittur á ákveðna staði en síðan hafa aðilar á viðkomandi stöðum jafnvel selt kvótann sinn. Þannig viðgengst hringavitleysan, að fiskveiðiheimildir á einum sem samkvæmt lögum er heimilt að láta ganga kaupum og sölum geta verið seldar úr byggðarlagi sem byggðakvótanum er úthlutað til.

Það væri fróðlegt að fá að heyra um hreyfingar á aflaheimildum á þeim stöðum sem úthlutað hefur verið til. Eins væri fróðlegt, herra forseti, að vita hver staðan er með skipstjórakvótann gamla sem fylgdi ... (Gripið fram í: Það vantar ráðherrann.) Já, hæstv. sjútvrh. er ekki viðstaddur. Mér er kunnugt um að hann hafi öðrum störfum að gegna. Hitt er aftur dapurlegra að formaður og varaformaður sjútvn. hefðu að skammlausu getað verið hér viðstaddir umræðuna. Þeir eiga að fylgja þessum málum inn í nefnd. Ég vil beina því til hæstv. forseta að það er mjög eðlilegt að formenn nefnda, ekki síst í fjarveru ráðherra, séu viðstaddir umræðu um stjórnarmál.

Það væri fróðlegt að vita hvað hafi t.d. orðið af þessum skipstjórakvóta sem fylgdi með til þeirra sem eignuðust kvótann á sínum tíma? Samkvæmt þeim lögum þegar verið var að úthluta kvótanum áttu þeir ekki að vera framseljanlegir. Hafa þeir nokkuð verið sérmerktir inni í því? Eru menn ekki áfram að selja þessa skipstjórakvóta sem þá fylgdu með? Af hverju voru menn þá bara með skipstjórakvóta? Af hverju voru menn þá ekki með sjómannakvóta líka? Verðmætin sem liggja í fiskveiðunum voru ekki bara bundin við útgerðarmenn og skipstjóra, þau voru líka tilkomin vegna vinnu sjómannanna. En sjómenn á skipunum fengu engan sjómannakvóta.

Hvers virði hefðu fiskveiðiheimildirnar verið ef fiskurinn hefði ekki verið unninn í landi? Fiskvinnslufólkið lagði þar sitt fram. Hvers vegna fékk ekki fiskvinnslufólkið kvóta úr því verið var að úthluta einstökum aðilum kvóta sem lagt höfðu sitt að mörkum við verðmætasköpunina? Þessi kvóti varð síðan framseljanlegur.

Herra forseti. Þetta fiskveiðistjórnarkerfi er svo götótt og óréttlátt frá upphafi til enda, frá öllum hliðum og öllum köntum, að eitt það brýnasta fyrir samfélag okkar í dag er að taka kerfið til grundvallaruppstokkunar eigi ekki að koma upp enn alvarlegri staða í rekstri og samsetningu samfélagsins.

Ég dró bara þetta eina atriði til að benda á hvers konar óréttlæti hefur viðgengist hér. Skipstjórakvótar sem fylgdu inn til útgerðanna áttu ekki að vera framseljanlegir en ganga núna kaupum og sölum. Sjómennirnir fengu engan kvóta. Fiskvinnslufólkið fékk engan kvóta. Svona er þetta frá upphafi til enda.

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt þunga áherslu á að stefnunni í fiskveiðistjórnarmálum verði breytt. Lögð er grundvallaráhersla á nokkur meginatriði sem ég vil nefna: Í fyrsta lagi að sameign þjóðarinnar á fiskstofnunum verði tryggð með óyggjandi hætti og að réttlát skipting afraksturs þessara auðlinda sé jafnframt tryggð, sem alls ekki er í dag.

Það verður að gera þá grundvallarbreytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu að fólkið í landinu, um hinar dreifðu byggðir og með ströndum landsins sem hefur byggt afkomu sína á að nýta þessa auðlind, allri þjóðinni til hagsældar, fái til baka tilverurétt sinn og forgang að nýtingu á þessum auðlindum sem liggja á grunnslóðinni meðfram ströndum landsins. Annað kerfi verður aldrei réttlátt. Annars verður það óréttlátt, gengur á hagsmuni þessa fólks og ógnar tilveru þeirra.

Við þurfum líka að leggja stóraukna áherslu á sjálfbæra nýtingu þessara auðlinda. Við þurfum að leggja áherslu á vistvænar veiðar sem fara mjúkum höndum um þessa auðlind, um lífríki sjávarins. Þar skortir mikið á í dag. Það er dapurlegt, herra forseti, að minna hefur orðið úr rannsóknum og þróunarstarfi á vistvænum veiðum en áður var stefnt að. Nú heyrist vart á það minnst af hálfu þeirra sem stjórna rannsóknum og stýra fiskveiðistjórnarmálum. Umgengnin við auðlindina kemur okkur í koll ef við gætum ekki hófs. Við njótum góðra verka en fáum það líka í bakið, ekki síst ókomnar kynslóðir, ef við göngum þar á hinn eilífa rétt náttúrunnar.

Það verður að sjá til þess að fiskveiðistjórnarkerfið tryggi búsetu meðfram ströndum landsins, að þeir sem búa meðfram ströndunum eigi þar forgangsrétt til auðlindanna meðfram ströndunum.

Þetta eru nokkrar af meginkröfunum sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á, þ.e. að fólkið í landi, fiskvinnslufólkið, verkafólkið og íbúarnir á svæðunum, eigi frumburðarrétt til að nýta þessar auðlindir meðfram ströndum landsins. Sá réttur er nú að litlu eða að engu virtur í fiskveiðistjórnarkerfinu sem við búum við. Á meðan ekki er tekið á þessum grundvallaratriðum, herra forseti, förum við veg sem við vitum ekki hvert mun leiða okkur. Við vitum þó að hann leiðir okkur ekki til góðs. Með því að fara þessa leið göngum á rétt íbúanna vítt og breitt um landið.

Það að leggja hér fram frv. um úthlutun á þessum 500 tonnum sem var ekki úthlutað á sl. ári sýnir bara hvers konar uppgjafarstjórn er á fiskveiðum í landinu. Menn koma með lítinn plástur í dag og annan á morgun en áfram er fiskveiðistjórnarkerfið blæðandi und á byggðunum í landinu.

Við verðum að skapa fiskveiðistjórnarkerfi sem gefur íbúunum öryggi, sjálfstraust og forgangsrétt til þessara auðlinda. Verði það gert mun fara saman hagur fólksins sem byggir hinar dreifðu byggðir og hagur þjóðarinnar allrar.