Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:25:12 (838)

2002-10-31 14:25:12# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þessi umræða heldur nú áfram eftir hádegið. Hún stóð hér frá klukkan hálfellefu og til klukkan eitt. Hæstv. sjútvrh. sat hér og hlýddi á umræðuna í morgun og allt gott um það. Fyrir hann var lagður fjöldi spurninga um hvernig reglur hann hygðist setja eða hvernig staðið yrði að því að úthluta þeim veiðiheimildum sem hér er verið að ræða um. Ýmsar aðrar spurningar komu fram í umræðunni og ég spyr hæstv. forseta: Verður ekki hæstv. sjútvrh. hér við lok þessarar umræðu?

Ég held að það sé afar mikilvægt að hann svari þessum spurningum. Hér er um að ræða mál sem er mjög mikilvægt. Það er mjög alvarlegt hvernig að þessu öllu er staðið. Það eru mjög skiptar skoðanir um þetta og full ástæða til að þinginu sé gerð grein fyrir því hvernig reglum við eigum von á núna. Aldrei hafa þær verið eins og ýmsar breytingar virðast liggja í loftinu á þeim reglum sem á að nota við þessar úthlutanir.