Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:28:43 (842)

2002-10-31 14:28:43# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:28]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi að ég geri ekki athugasemdir að hæstv. ráðherra sé ekki viðstaddur ræðu mína enda ætla ég eingöngu að fjalla um meginefni þessa frv., þ.e. áframeldi á þorski.

Það hefur reyndar verið svolítið sérkennileg umræða um þetta frv. sem er ekki stórt að sniðum. Það snýst um áframeldi á þorski en umræðan hefur hlaupið, eins og oft vill verða þegar verið er að fjalla um stjórn fiskveiða, út um víðan völl. Menn sakna þeirra þingmanna sem ekki eru í þingsalnum og hafa fjallað um kvótakerfið í allri sinni dýrð skulum við segja og þar fram eftir götunum. En minnst hefur umræðan verið um efni þessa frv.

Það vakti athygli mína að í máli síðasta hv. ræðumanns, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, vék hann reyndar ögn að þessu frv. og taldi það afskaplega rýrt efnislega. Mér fannst hann gera fulllítið úr þeim möguleikum sem felast í eldi.

[14:30]

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um heimild til þess að nýta 500 tonn til áframeldis á þorski. Það er nú í rauninni ekki mikið flóknara en það. Það er kjarni frv. Þetta er áframhald af lagasetningu sem Alþingi (Gripið fram í.) samþykkti ekki alls fyrir löngu og fékk í rauninni ágæta umræðu þá.

Hvað þýðir það? Hvers vegna er verið að heimila hér 500 tonn til áframeldis á þorski? Með því móti er hið opinbera að gera sitt til þess að ýta undir nýja atvinnugrein hér. Og hvers vegna skyldi hið opinbera vera að ýta undir nýja atvinnugrein, eldi á þorski? Það ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir og hefur margsinnis komið fram, bæði í umræðu þegar lagasetningin átti sér stað hér í vor og eins í þáltill. frá hv. þm. Karli V. Matthíassyni um þorskeldi. Því er spáð nefnilega að um heim allan verði eldisfiskur líklega ráðandi fæða, þ.e. að sá fiskur sem mannkynið komi til með að neyta muni að mestu koma úr eldi, og ekki síst þá úr eldi þeirra nytjastofna sem þekktir eru í dag.

Þess vegna, herra forseti, leggja þjóðir víða um heim ofurkapp á að ná tökum á eldi nytjastofna. Ég vil sérstaklega nefna þorskinn og ríki eins og Noreg og Skotland, og svo Nýfundnaland í Kanada, þar sem hið opinbera, einstaklingar og fyrirtæki leggja mikið kapp á að ná tökum á eldi þorsks, enda er þorskur afskaplega vinsæl markaðsvara og getur skapað mikil verðmæti.

Ef við Íslendingar sem þjóð fylgjum ekki með í þeirri þróun þá munum við einfaldlega dragast aftur úr. Þá munum við sitja eftir í harðri samkeppni við nágrannaþjóðir okkar og aðrar um sölu á fiskafurðum. Og trúi ég naumast að til þess sé vilji.

Ég hef litið svo á að með þessu frv. og með heimildum til þess að leggja 500 tonn til áframeldis á þorski þá sé verið að styðja við eina af stoðunum í þorskeldi. Á þessu sviði hefur töluvert verið unnið hér. Má þar nefna ágætan og mjög glæsilegan árangur vísindamanna okkar hjá Hafrannsóknastofnun, á útibúinu á Stað í Grindavík, þar sem þeim hefur tekist ágætlega að ná tökum á því að klekja út þorskseiði.

Ég vil líka nefna mjög athyglisvert þróunarstarf á vegum Útgerðarfélags Akureyringa í þorskeldi, í svokölluðu unglingaeldi og ekki síst sjókvíaeldi. Ég vil nefna áform í Vestmannaeyjum. Ég vil nefna sjókvíar bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Ég nefni þetta, herra forseti, til þess að sýna að einstaklingar, fyrirtæki og vísindamenn hér hafa verið að vinna töluvert í þessu. En betur má ef duga skal og ég lít svo á að markmið þessa frv. sé einmitt að veita stuðning við þessa nýju atvinnugrein.

Eins og kunnugt er skiptist þorskeldið í þrjá þætti. Í fyrsta lagi er það seiðaeldi sem líklega gæti eitt og sér orðið sjálfstæð atvinnugrein hér á landi þar sem náttúrulegar aðstæður henta til þess, ekki síst byggt á því mæta vísindastarfi sem unnið hefur verið á Stað í Grindavík á vegum Hafrannsóknastofnunar. Í öðru lagi er svo um hið svokallaða unglingaeldi að ræða þar sem seiðin eru alin upp í sleppistærð í landkvíum við náttúrulegar aðstæður og er það algjörlega aðskilið ferli frá seiðaeldinu sjálfu. Lokastigið er síðan áframeldi í sjókvíum eins og hefur verið reynt fyrir norðan, austan og vestan.

Markmið þessa frv. er einmitt að hvetja til þess að menn þrói áframeldi á þorski og nái þekkingu á því lokastigi. Þær tilraunir sem hér hafa verið stundaðar gefa einmitt mjög góða raun. Á mjög skömmum tíma hefur þorskurinn tvöfaldað þyngd sína. Það eru ýmsir kostir við það. Menn geta nokkuð stjórnað því hvenær þeir setja fisk á markað og farið þá nokkuð eftir því hvenær verðið er hægstæðast fyrir þá sem ætla sér að setja þennan fisk á markað. Þetta gefur mönnum möguleika á því í raun að auka kvóta sinn með því að auka stærð hans, þyngd hans og þar af leiðandi verðgildi.

Frv. er sem sagt samið til þess að styðja við bakið á einni af þremur stoðgreinunum í þorskeldinu, þeirri sem ég trúi og vona að eigi eftir að verða blómleg og vænleg atvinnugrein hér á Íslandi, enda höfum við þekkingu til þess.

Við erum hins vegar rétt að byrja þetta merkilega starf. Við eigum eftir að þróa það áfram og ég trúi því að það muni gerast með jákvæðum hætti, t.d. vonast ég til þess að þær merkilegu erfðarannsóknir og sá góði árangur sem náðist á því sviði í tengslum við laxeldið hjá íslenskum vísindamönnum, þ.e. að sú reynsla geti nýst við þorskeldið og muni auka þar af leiðandi möguleika til verðmætasköpunar í þorskeldinu margfalt.

Með áframeldi á þorski og með þorskeldi almennt opnast að sjálfsögðu mjög góðir og miklir möguleikar fyrir dugmikla einstaklinga og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins til þess að sækja fram í nýrri atvinnugrein, beinlínis nýrri atvinnugrein. Þess vegna er ekki rétt að tala eins og sumir hv. þm. hér hafa gert, þ.e. eins og þorskeldið sé eitthvert aukaatriði. Það á vonandi eftir að verða ein af blómlegri atvinnugreinum okkar og óttast ég það helst að Norðmenn séu þegar komnir ögn fram úr okkur svo við þurfum verulega að spýta í til þess einfaldlega að sitja ekki eftir.

Þetta getur orðið mikil byggðaaðgerð. Þetta mun auka verðmæti sjávarafurða og skapar okkur þá möguleika að standast samkeppni við nágrannaþjóðir. Til þess þurfum við að leggjast á eitt um að styðja við bakið á öllum þremur stoðgreinum þorskeldisins, seiðaeldinu, unglingaeldinu og áframeldi í sjókvíum, og það er einmitt meginkjarni frv. Því tel ég þetta vera afskaplega jákvætt ákvæði og finnst að hv. þingmenn eigi að tala jákvætt um þennan þátt. Hins vegar getum við svo endalaust talað um stjórn fiskveiða og hvaða fiskveiðikerfi sé hentugast. Ég tel í rauninni að það sé ekki endilega á dagskrá vegna þessa frv.

Herra forseti. Þetta er það sem ég vildi draga fram og lýsi ég yfir fullum stuðningi við efni frv. og tel að það sé til þess eins gert að styðja við bakið á atvinnugrein sem við eigum og erum að hasla okkur völl á.