Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:38:49 (843)

2002-10-31 14:38:49# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:38]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason kom nú í litlu að þessu frv. Hann fór að tala um fiskeldi almennt, þorskeldi, og fræðilegan grunn á bak við það. Það er svo sem gott mál og afar mikilvægt er að fiskeldi eins og þorskeldi fái að þróast og styrkjast. Það er gott mál.

Um hvort það eigi að gerast á þann hátt að teknar séu aflaheimildir svona almennt út úr púkkinu og allir látnir taka þátt í því, eru svo aftur skiptar skoðanir, eða þá hvort þetta eigi bara að kaupa fyrir fjármuni sem lagðir eru beint til rannsóknastarfsins. En það er annað mál.

Það hefði samt verið fróðlegt ef hæstv. sjútvrh. hefði getað verið hér og greint frá því hvernig þessum heimildum hefur verið ráðstafað á liðnu fiskveiðiári og hver stefnan sé í því, þ.e. hvernig þessar heimildir eru teknar út úr púkkinu, út úr heildaraflaheimildunum, og úthlutað til ákveðinna aðila. Það hefði verið fróðlegt að sjá þá mynd. En að sjálfsögðu viljum við styrkja og efla þorskeldið.

Hinn hlutann kom hv. þm. ekkert inn á, virðulegi forseti, þ.e. þessar byggðaaðgerðir, þá fátæklegu plástra sem hér eru á ferðinni. Það hefði verið fróðlegt ef hv. þm. hefði farið nokkrum orðum um stöðuna á Suðurnesjum hvað varðar fiskveiðiheimildir, hvort heldur stöðuna í Grindavík eða Sandgerði og hvernig þessi byggðarlög standa núna berskjölduð frammi fyrir fiskveiðistjórnkerfinu eins og það birtist þeim í hinum grimma raunveruleika. Það hefði verið ágætt ef hv. þm. hefði aðeins komið inn á þau verðlaunaafrek sem þessi ríkisstjórn er að vinna á sviði fiskveiðistjórnar.