Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:40:46 (844)

2002-10-31 14:40:46# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:40]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég nefndi áðan að umræða um kosti og galla núverandi fiskveiðistjórnkerfis og um fiskveiðistjórnkerfi almennt hefur oft farið hér fram og hún á eftir að fara fram. Það sem ég er að reyna að draga fram og tel skipta miklu máli --- menn mega nú ekki vera svo svartsýnir í tilverunni að þeir sjái þó ekki ljósið --- er að ég tel einfaldlega að áframeldi á þorski sé kjarninn í þessu litla frv. og það er það sem ég vildi draga fram.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að áframeldi á þorski getur skapað gífurlega jákvæð sóknarfæri fyrir sjávarplássin í landinu. Ég deili áhyggjum af stöðu einstakra sjávarplássa með hv. þm. Sú umræða hefur farið hér fram og hún mun halda áfram hér í vetur. Þetta frv. tekur ekki á þeim vanda.

Ég segi það enn og aftur að ég fagna því að hér skuli verið að styðja við eina af þremur stoðum í þorskeldi á Íslandi, vaxandi og vonandi mjög jákvæðri atvinnugrein fyrir okkur.