Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:52:40 (853)

2002-10-31 14:52:40# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:52]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má alveg segja að við ættum að tala meira um það sem jákvætt er. Hins vegar er sá ágreiningur sem stendur um sjávarútvegsmálin svo alvarlegur að menn hafa kannski ekki alveg fundið fæturna undir sér í því að tala á jákvæðum nótum á meðan gildandi stefna er keyrð svo hart.

Ég held hins vegar að um leið og búið verður að leysa úr grunnágreiningsefninu um sjávarútvegsmálin muni þessi umræða öll fara í jákvæðari farveg. Og ég vona sannarlega að við fáum að lifa það hér í hv. Alþingi að tekið verði á grunnágreiningnum. En meðan það verður ekki gert munu umræður yfirleitt ekki vera með jákvæðum hætti um þetta mál.