Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 14:59:18 (857)

2002-10-31 14:59:18# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[14:59]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er, held ég, ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni að við höfum ekki talað um þorskeldi. Hér hefur verið flutt tillaga um skipulag þorskeldis og hvernig mætti styðja við það en hún hefur ekki fengist samþykkt í hv. þingi, ef ég man rétt. Sá sem hér stendur hefur hins vegar margsinnis bent á það sem hv. þm. rétt vék að í ræðu sinni, að skipta þarf flotanum upp í aðgreinda útgerðarflokka til að fást við þennan vanda. Trillunni og frystitogaranum verður ekki stýrt með sömu aðferð. Það er það sem núverandi fiskveiðistjórnarkerfi býður upp á. Og eins og hv. þm. veit mætavel gæti frystitogaraútgerðin í landinu keypt upp alla kvóta smærri bátanna og flutt þá út á sjó. Það er eitt af stóru vandamálunum í kerfinu og verður ekki lagað nema menn fáist til þess að byrja á að skipta verkinu sem þeir ætla að fást við upp í ákveðin vinnuferli.