Rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 15:51:10 (865)

2002-10-31 15:51:10# 128. lþ. 19.11 fundur 254. mál: #A rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[15:51]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu tillaga um að kanna eignarstöðu íbúa landsbyggðarinnar. Hér er verið að hreyfa ákaflega þörfu máli sem varðar einn af þáttunum sem mynda almenn búsetuskilyrði fólks. Verðmæti eignanna ræðst m.a. af því hvernig menn meta stöðu sína miðað við atvinnuhorfur, þjónustu, vöruverð og önnur samkeppnisskilyrði, aðgang að menntun og auðvitað fjöldamörg önnur atriði sem fólk telur skipta máli fyrir afkomu sína, stöðu og atvinnuöryggi.

Ljóst er að þróunin hefur sums staðar úti á landi því miður verið með þeim hætti að verð fasteignanna hefur rýrnað. Það er rétt sem kom fram í máli hv. 1. flm. tillögunnar, Örlygs Hnefils Jónssonar, að atvinnuástandið hefur geysileg áhrif á fasteignaverð. Það er líka rétt að í flestum tilfellum hefur venjulegt fólk megnið af sparnaði sínum bundið í húsnæði sínu. Fólk hefur auðvitað gert ráð fyrir því þegar það fór út í húsbyggingar eða húsnæðiskaup að þegar það kæmist á aldur og þyrfti að færa sig til eða breyta atvinnuháttum sínum gæti fólk fengið verðmæti eignarinnar til baka með sölu. Þróun undanfarinna ára hefur hins vegar gert það að verkum að í mörgum byggðarlögum á landinu hefur verð húseigna fallið hrikalega. Á sama tíma hækkar verð á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þar hjálpast auðvitað allt að. Íbúum á landsbyggðinni fækkar en fjölgar á höfuðborgarsvæðinu þegar fólk flytur á höfuðborgarsvæðið.

Í þeim sveitarfélögum sem liggja næst höfuðborgarsvæðinu hefur þó á undanförnum árum, m.a. með batnandi samgöngum og aukinni atvinnu með nýjum atvinnumöguleikum, orðið jákvæð þróun. Það segir okkur auðvitað að bæði atvinnustigið, möguleikarnir til að sækja sér þjónustu og samgöngubætur, hafa þarna veruleg áhrif. Sumir íbúar landsins hafa hins vegar fengið áhuga á að búa aðeins fjær þéttasta kjarnanum. Það eru að vísu eingöngu þeir sem hafa efni á að kaupa sér húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins en stunda jafnvel vinnu innan höfuðborgarsvæðisins. Þetta er einn þáttur í þessu máli.

Neikvæðast varðandi þróun verðs á íbúðarhúsnæði á landinu og íbúðabyggð tel ég að t.d. í sjávarbyggðunum hafa lögin um stjórn fiskveiða haft veruleg áhrif á tekjur fólks. Ég get tekið dæmi úr mínu kjördæmi, Vestfjarðakjördæmi, þar sem tekjur voru lengst af vel yfir landsmeðaltali en eru núna komnar verulega undir landsmeðaltal. Þetta hefur auðvitað mikil áhrif. Við sem höfum verið að vinna fyrir landsbyggðarkjördæmin höfum talað um það á undanförnum árum hvernig vinna má að því að laga stöðu fólks á landsbyggðinni. Í því sambandi var lengi talað um það að fasteignaskattar á landsbyggðinni væru mjög óeðlilegir vegna þess að þeir tóku mið af verðgildi húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Við þetta bjó landsbyggðarfólk lengi vel. Hins vegar er rétt að geta þess sem vel hefur verið gert. Eftir langar fortölur og miklar rökræður við núverandi stjórnarmeirihluta, náðist fram að fasteignaskattar eru nú miðaðir við verðgildi á landsvæðunum. Fólk úti á landi er ekki lengur að borga fasteignaskatt í hlutfalli við eignaverð á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var ákveðið réttlætismál en það vekur auðvitað athygli á því hvers konar tregða er í öllum þessum málum, að það skuli taka ár og áratugi að breyta því að fólk þurfi ekki að borga gjöld af eignum úr samhengi við verðgildi eignarinnar.

Með sama hætti getum við bent á kostnað fólks sem býr úti á landsbyggðinni, t.d. varðandi þungaskattinn og hvernig hann leggst á flutninga, vöruverð og þar af leiðandi líka á kostnað atvinnufyrirtækja úti á landsbyggðinni, hvernig virðisaukaskatturinn kemur svo þar ofan á og verður til þess að fólk sem býr fjærst höfuðborgarsvæðinu tekur á sig mestan kostnað að þessu leyti og borgar mun meiri virðisaukaskatt en íbúar á höfuðborgarsvæðinu gera af sams konar vöru. Þetta er auðvitað til viðbótar því að vöruverð er almennt hærra úti á landi en hér á höfuðborgarsvæðinu. Það eru því fjöldamörg atriði sem hægt er að benda á að ríkið gæti komið að til að laga aðstöðu fólks á landsbyggðinni. En það hefur verið mikil tregða til að gera það.

Fyrir þinginu liggur m.a. tillaga sem hv. þm. Kristján L. Möller er 1. flm. að, um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisskilyrði atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Þetta er hið merkilegasta mál og hefur dregið mjög skilmerkilega fram kostnað fólks við að búa úti á landsbyggðinni. Allt saman hefur þetta áhrif á íbúðaverðið. Ríkið er þannig í raun að beita óréttlátum skattaálögum til viðbótar við að reka byggðafjandsamlega atvinnustefnu eins og í sjávarútvegsmálum. Landsbyggðarfólk þarf að búa við þetta og það situr uppi með þennan kostnað.

Ég tel að þessi tillaga um könnun á rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar og hvernig megi bregðast við sé mjög þörf. Ég mun lýsa yfir stuðningi við hana fyrir hönd Frjálslynda flokksins.