Rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 16:08:12 (867)

2002-10-31 16:08:12# 128. lþ. 19.11 fundur 254. mál: #A rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[16:08]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um tillögu til þál. um nefnd til að kanna rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar. Hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson setur fram þessa tillögu en hún fjallar um að Alþingi álykti að setja á stofn nefnd sem kanni þróun fasteignaverðs á landsbyggðinni í samanburði við höfuðborgarsvæðið og nefndin skoði ítarlega hvernig eignir fólks á landsbyggðinni hafi rýrnað í verði og um hvaða fjármuni er að ræða, leiti úrræða og komi með tillögur til úrbóta. Og nefndinni er ætlað að ljúka störfum árið 2003.

Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að velta þessu fyrir sér og kortleggja hvað hefur gerst í þessum málum en í undirmeðvitundinni gerum við okkur öll náttúrlega grein fyrir hvaða meginþættir það eru sem hafa stuðlað að mjög harkalegri byggðaröskun hér á landi. Við höfum fjallað um stóran þátt þess í dag, þ.e. stjórn fiskveiða. Ég held að þegar fram í sæki --- þáltill. er góð og fyrri hluti hennar verður auðveldur í vinnslu, hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson, en seinni hlutinn verður öllu erfiðari. Seinni hluti tillögunnar fjallar um að leita úrræða og koma með tillögur til úrbóta. Þar komum við að hinum hápólitíska hluta málsins vegna þess að ég held að við getum öll verið sammála um það að stjórn fiskveiða er þarna stór þáttur. Um stjórn fiskveiða tökumst við á hér í þinginu næstum daglega, a.m.k. vikulega, af hörku.

Við höfum líka tekist á um aðra grunnþætti sem eru pólitísks eðlis en við vitum að á undanförnum árum hefur þróun opinberrar þjónustu með auknum þunga leitað hingað af ýmsum orsökum en þó mest fyrir tilstilli hins opinbera. Þarna vega samgöngumálin gríðarlega þungt, samgöngur og flutningar af öllu tagi. Ég held að hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson geti verið sammála um að bara það eitt að gefa þau skilaboð til Húsvíkinga að nú verði ekki lengur flogið á Húsavíkurflugvöll sé áfall í sjálfu sér fyrir allt það samfélag og þá þjónustu sem byggir að mestu leyti á flugi, eins og t.d. ferðamannaiðnaðurinn.

Hér eru gríðarleg átök um fjarskipti og hafa átt sér stað langar og miklar umræður í þinginu um hvort eigi t.d. að selja Símann eða ekki, hvort eigi að einkavæða o.s.frv. Ég held að allir átti sig á því núna að þær hræringar sem hafa verið á fjarskiptamarkaði hafa gert það að verkum símareikningurinn hefur stórhækkað og það er að margra mati að verða áþreifanlegra núna að símaþjónustan úti um land, hinar dreifðu byggðir er að minnka. Þetta eru grunnatriði sem verða að vera í lagi til þess að fólk vilji og geti starfað í hinum dreifðu byggðum landsins.

Við höfum tekist á hér og erum enn að takast á um grunnþjónustu svo sem eins og fjármálastarfsemi, þjónustu bankanna. Það eru hræðileg skilaboð til hvers einasta samfélags þegar jafnvel ríkisbankarnir, meðan þeir voru óseldir, setja upp prógramm sem byggir á því að leggja niður stöðvar eða útibú og minnka þjónustu við hinar dreifðu byggðir. Þetta eru allt saman grundvallaratriði sem verða að vera í lagi. Allir nágrannar okkar sem hafa verið að kljást við erfiðleika varðandi byggðamál hafa áttað sig á að þetta eru grunnatriði sem verða að vera í lagi. Það er skoðun mín að menn hafi gjörsamlega lokað augunum fyrir slíkum grunnþjónustumálum.

Ég get tekið rafmagnsmálin líka. Það er einfasa rafmagn úti um hinar dreifðu byggðir, þar er þrífösun ekki möguleg sem gerir allan iðnað mjög erfiðan o.s.frv. Það er þess vegna stórpólitískt mál hvernig tekið er á þessum málum sem síðari hluti tillögunnar fjallar um. Og það er ekkert launungarmál af minni hálfu og af okkar hálfu hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að við teljum að þau mál sem ég var að telja upp, þ.e. stjórn fiskveiða, opinber þjónusta í víðum skilningi, samgöngumálin, fjarskiptin, þ.e. Síminn, bankamálin og þjónusta þeirra, ég tala nú ekki um Póstinn, að þetta eru grunnatriði sem verða að vera í lagi til þess að hægt sé að tala af nokkru viti um framtíðarmöguleika fólks til að búa og byggja upp og starfa í hinum dreifðu byggðum og þess vegna verður tekist á um þau mál í grundvallaratriðum. En upplýsingarnar sem þáltill. mun færa okkur eru mjög góðar og eru auðvitað grunnur til að fjalla um þessi mál.

En við skulum ekki gleyma því að vegna þess hvernig við höfum haldið á málum varðandi dreifbýlið hefur uppspennt húsnæðisverð á höfuðborgarsvæði verið til ómælds tjóns fyrir alþýðu landsins, þ.e. þá alþýðu sem býr hér, því að afleiðing búseturöskunarinnar er í raun og veru uppsprengt verð á fasteignum hér sem við eigum ekki og megum ekki þurfa að miða okkur við vegna þess að almenningur hér, ungt fólk og þeir sem þurfa að skaffa sér hús yfir höfuðið þurfa að reiða fram ómældar milljónir bara vegna ástandsins í búsetumálum. Hér er því um að ræða landsmál í þeim skilningi að ástandið, flutningur fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins gerir fólki gríðarlega erfitt að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Við erum að tala um milljóna mun sem er þar á og það eru miklir peningar í hverjum mánuði sem þarf að borga fyrir hverja milljón umfram það sem kostar að koma sér upp lítilli íbúð til þess að byrja með, t.d. fyrir ungt fólk. Ég er raunar hissa á því í þessu samhengi að ungt fólk skuli ekki líta meira til þess að flytja til staða þar sem atvinna er sannarlega fyrir hendi en húsnæðisverð er mjög ódýrt. Það er staðreynd að atvinnufyrirtæki á landsbyggðinni hafa þurft að flytja inn fólk frá útlöndum, ágætisfólk, til þess að vinna þar. En það er alveg eins og fólk hér um slóðir hafi ekki áttað sig á því að út frá þessu ástandi í byggða- og búsetumálum eru sannarlega sóknarfæri fyrir fólk að komast inn í ódýrt húsnæði og koma undir sig fótunum þar af leiðandi fljótar með því að nýta sér og notfæra sér þá möguleika sem þarna skapast. Þetta eru að vísu möguleikar sem við hefðum viljað komast hjá að þurfa að horfast í augu við en staðreyndin er sú að þarna eru færi og þarna eru möguleikar.

Ég vil árétta það að síðustu, virðulegur forseti, að síðari hluti tillögunnar er þess eðlis að fjalla verður um hann á pólitískum vettvangi og það gerum við svo sannarlega á hverjum degi. Það eru þessi grunnþjónustumál. Að svo mæltu læt ég máli mínu lokið.