Rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 16:16:43 (868)

2002-10-31 16:16:43# 128. lþ. 19.11 fundur 254. mál: #A rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar# þál., Flm. ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Flm. (Örlygur Hnefill Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umræðu: 5. þm. Vesturl., Gísla S. Einarssyni; 5. þm. Norðurl. v., Jóni Bjarnasyni; 4. þm. Vestf., Guðjóni A. Kristjánssyni; 2. þm. Vestf., Karli V. Matthíassyni og 6. þm. Norðurl. e., Árna Steinari Jóhannssyni.

Ég vil aðeins koma inn á orð hv. 6. þm. Norðurl. e., Árna Steinars Jóhannssonar, hér á undan um að þetta væri landsmál. Auðvitað er það landsmál þegar fólk fer frá fasteignum á landsbyggðinni til að kaupa sér eða byggja yfir sig á öðrum stað og skilur eftir eignir sem eru þá ekki mikils virði. En það er ekki bara það. Það þarf líka að byggja upp alla grunnþjónustu samfélagsins, jafnvel í nýjum hverfum, sömu grunnþjónustu og er til staðar, en lendir á færri herðum, í sveitarfélögunum. Það er auðvitað stórt þjóðfélagslegt mál að sjá til að þær eignir sem fyrir eru nýtist sem best og þurfi ekki að byggja þær upp að nýju.

Ég tel að það eigi að vera markmið ríkisstjórnar hverju sinni að verja eignir allra landsins þegna, hvort heldur er í höfuðborginni, sem við viljum að vaxi og dafni eins og sagði í kvæðinu, með leyfi forseta:

  • Hún óx um tíu alda bil,
  • naut alls, sem þjóðin hafði til,
  • varð landsins högum lík.
  • En það á líka að verja eignir fólks á landsbyggðinni. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða. Það hefur verið tregða hjá opinberum stofnunum við að koma á landsbyggðina. Þetta er að breytast. Á Akureyri hefur t.d. háskólinn komið myndarlega inn og heimamenn hafa unnið þeirri stofnun vel og eflt hana þannig að áhrifa hennar sér stað um allt land eins og ég sagði áður. Mig langar aðeins til þess að nefna nokkrar tölur í því sambandi. Háskólinn á Akureyri er í Reykjanesbæ með 49 nemendur, 67 í Hafnarfirði, 6 í Borgarnesi, 5 á Patreksfirði, 43 á Ísafirði, 15 á Blönduósi, 25 á Sauðárkróki, 8 á Siglufirði, 25 á Egilsstöðum, 5 í Neskaupstað, 6 á Hornafirði, 39 á Selfossi og 21 í Vestmannaeyjum. Þetta er dæmi um stofnun sem vistuð var á landsbyggðinni og hefur verið að skila Akureyri fram á við, styrkja eignir þar og með þessu starfi sínu er Háskólinn á Akureyri að styrkja eignir á öllum þeim stöðum sem ég nefndi. Hann gerir búsetu þar bærilegri, fólk getur stundað nám þar og þetta styrkir eignir þeirra sem þar búa.

    Hér er um grafalvarlegt mál að ræða sem ég er að reyna að vekja athygli á og vænti þess að muni lifa áfram í umræðunni. Þetta er réttlætismál. Þetta mál brennur á landsbyggðarfólki og er löngu tímabært að hið háa Alþingi taki á þessu máli. Ég veit að landsbyggðarfólk treystir því að það verði gert. Landsbyggðarfólk er ekki að biðja um neitt sérstakt sér til handa umfram aðra. Það er ekki að biðja um annað en réttlæti í þessu máli. Það er þjóð okkar best að allir þegnar hennar njóti sömu umhyggju, kjara og aðstöðu. Því er þetta mál flutt hér.

    Mér þykir verra að hér hafa einungis tekið til máls stjórnarandstöðuþingmenn og að enginn úr stjórnarliðinu sem farið hefur með landstjórnina síðasta áratuginn skuli hafa tekið þátt. Ég vænti þess að þeir ágætu hv. þm. muni líka vaka yfir þessu máli og gefa því gott brautargengi.