Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 16:43:04 (872)

2002-10-31 16:43:04# 128. lþ. 19.9 fundur 26. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[16:43]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Hér hreyfir hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, þörfu máli. Hv. þm. gerði ítarlega grein fyrir ýmsum þáttum í máli þessu og því til rökstuðnings þegar hann talaði fyrir því áðan. Ég vil aðeins vitna í frv., með leyfi forseta, þar sem segir:

,,Frumvarp þetta samrýmist vel þeirri stefnu sem haldið hefur verið á lofti í byggðamálum og felst í því að stækka atvinnusvæði á landsbyggðinni.``

Ég tek einmitt undir það að við göngum núna í gegnum breytta búskaparhætti. Það er auðvitað vitað mál að það hefur verið samdráttur í hinum hefðbundnu búgreinum. Fólk sem býr í sveitum, jafnvel í nágrenni við þéttbýlið þó að það sé um töluverðan veg að fara, lendir í þeim vandræðum að það verður að halda eignum sínum og búsetu en getur þó sótt atvinnu inn á þéttbýlisstaðina. Því er þetta mjög þarft og allt tengist þetta --- í dag tengjast hér öll mál --- því að styrkja þessar eignir og að fólk geti búið á býlum sínum.

Annað sem við erum líka að upplifa í íslensku þjóðfélagi er hin hraða sameining sveitarfélaga. Ekki eru alltaf sameinuð þau sveitarfélög sem smæst eru að flatarmáli heldur er oft um mjög víðtæka landfræðilega sameiningu að ræða sem getur skipt tugum kílómetra. Það mál sem hér er flutt tekur á því að fólkið geti þá hreyft sig innan þeirra svæða eftir atvinnu. Eins og hér kom fram er vaxandi sókn í það lífsmunstur að hafa búsetu jafnvel utan þéttbýlisins en sækja atvinnu um nokkurn veg. Þessi tillaga getur hjálpað því fólki og stuðlað að slíkri búsetu.

Að lokum bendi ég á að það er ákveðin framtíð í stærri atvinnusvæðum, og með bættum samgöngum vitum við að atvinnusvæði stækka. Beinlínis er gert ráð fyrir því, t.d. varðandi uppbyggingu stóriðju á Austurlandi, að menn muni koma um lengri veg til að sækja þar atvinnu. Ég tel því það mál sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hreyfir hér stórmál í sambandi við það. Svona hlutir þurfa að vera frágengnir þegar á að fara að byggja upp þann atvinnuveg. Eins mundi þetta gagnast vel t.d. stóriðju á Norðurlandi þannig að hér er verið að hreyfa þörfu máli og góðu.