Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 16:46:19 (873)

2002-10-31 16:46:19# 128. lþ. 19.9 fundur 26. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[16:46]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka undirtektir hv. þm. við frv. það sem ég hef mælt fyrir. Ég tel að frv. komi að mörgum atriðum varðandi það að styrkja búsetu fólks og atvinnumöguleika.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson vék að áðan varðandi tillögu þá sem hann hefur flutt um samgöngur í Eyjafirði, að auðvitað tengist þetta almenningssamgöngum. Eins og ég gerði grein fyrir er í tillögunni ekki gerður greinarmunur á hvaða ferðamáta fólk notar til þess að ferðast að og frá vinnu sinni, heldur eingöngu að það yrði að sýna fram á þann kostnað sem það hygðist telja fram sem frádrátt frá tekjum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa tölu til viðbótar um þetta mál en vil kannski segja að lokum að ég gat þess að í Noregi væru svipaðar reglur um heimildir fólks til að draga frá tekjum. Það er auðvitað þar eins og hér á landi að vegalengdir eru skattlagðar eins og hv. þm. Jón Bjarnason gat um áðan. Fjarlægðir eru skattlagðar hjá okkur í bensíngjaldi og ýmsum sköttum sem leggjast á farmiða, virðisaukaskatti, þungaskatti og öðru slíku ef því er að skipta. Ferðalög eru því almennt skattlögð.

Því er mjög eðlilegt að við reynum að útfæra og stuðla að þeirri þróun sem reyndar hefur verið lagt upp með að atvinnusvæði á landsbyggðinni muni stækka eins og hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson kom að áðan. Það er m.a. til þess að við séum þá tilbúin til að takast á við þá þróun sem vonandi verður, að álver rísi á Austurlandi og að efnt verði til uppbyggingar orkufreks iðnaðar á Norðausturlandi. Eftir sem áður horfum við á það og er rétt að geta þess í umræðunni að við í Norðvesturkjördæminu höfum áhyggjur af því að mikil uppbygging verði í öðrum landshlutum í ýmsa þá veru sem við höfum verið að nefna, t.d. í orkufrekum iðnaði og iðnaðarstörfum, en að norðvestursvæðið sitji eftir. Þess vegna er auðvitað afar nauðsynlegt að menn fari á nýjan leik yfir fiskveiðistjórnarlögin og skoði hvernig þau svæði sem ekki hafa í sjónmáli nýja atvinnumöguleika eiga að komast af í samkeppni því auðvitað er samanburður milli landshluta hvernig fólk kemst af.

Ég tel að tillagan sé til þess að jafna stöðu fólks og hún sé þannig hugsuð að allir eigi að geta setið við sama borð og mönnum sé gert jafnhátt undir höfði. Ég þakka undirtektir hv. þm. og mæli með að tillagan fari til efh.- og viðskn.