Uppbygging endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 16:50:18 (874)

2002-10-31 16:50:18# 128. lþ. 19.10 fundur 28. mál: #A uppbygging endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri# þál., Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[16:50]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um frekari uppbyggingu endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Flutningsmenn að tillögunni er sá sem hér stendur og hv. 5. þm. Austurl., Þuríður Backman.

Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hrinda í framkvæmd frekari uppbyggingu endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.``

Á Kristnesi í Eyjafirði er nú starfrækt endurhæfingardeild. Nítján virk endurhæfingarrými eru á deildinni sem er of lítið miðað við þarfir upptökusvæðis Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Á endurhæfingarstofnunum á Suðurlandi eru 35--40 rúm að meðaltali nýtt af sjúklingum af Norður- og Austurlandi. Langir biðlistar eru á þeim stofnunum og því einsýnt að aukin afkastageta endurhæfingardeildar á Kristnesi væri hagkvæm lausn. Húsnæði sem til er þarfnast lagfæringa og fjölga þyrfti stöðuheimildum nokkuð. Raunhæft virðist að stefna að 25 rúma legudeild auk 11 dagvistarrýma sem fyrst og fremst yrðu notuð af sjúklingum frá Akureyri og næsta nágrenni. Sjúklingar sem búsettir eru fjær þyrftu að eiga kost á sjúkrahóteli. --- Ég skýt því inn í, virðulegi forseti, að fyrr í dag mælti hv. þm. Þuríður Backman einmitt fyrir till. til þál. um uppbyggingu sjúkrahótela. --- Aukin starfsemi endurhæfingardeildar mundi þannig bæta endurhæfingarþjónustu á Norður- og Austurlandi, stytta legutíma endurhæfingarsjúklinga á bráðadeildum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og stytta biðlista vegna endurhæfingar. Þessi aðgerð yrði tvímælalaust til mikilla hagsbóta í heilbrigðiskerfinu. Að mati Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri næmi rekstrarkostnaður við aukna endurhæfingu u.þ.b. 54 millj. kr. á ári.

Þessi tillaga er í fullu samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Hún mun auka þjónustuna á Norður- og Austurlandi, verða til hagsbóta fyrir allt það fólk sem þarf á þessari þjónustu að halda á svæðinu. Þá mundi framkvæmd hennar létta á þessari starfsemi á suðvesturhorninu og hafa jákvæð áhrif fyrir landið allt. Einnig mundu skapast auknir möguleikar fyrir framhaldsendurhæfingu á sjúkrahúsunum á Norður- og Austurlandi, t.d. á Húsavík og Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Aðgerð af þessu tagi mun einnig auka atvinnu á þessu sviði á Eyjafjarðarsvæði og er það í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar í byggðamálum eins og þau eru sett fram í nýrri byggðaáætlun.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lesið úr greinargerð með þáltill., en á fylgiskjali með tillögunni eru nákvæmir útreikningar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, þ.e. kostnaðaráætlun fyrir stöður vegna aukinnar endurhæfingar.

Ég ætla ekki að fara yfir það, virðulegi forseti, en heildarkostnaður sem settur er fram í áætlunum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er 53.438.391 kr.

Virðulegi forseti. Það eru einmitt svona aðgerðir sem liggur beinast við að fara í til byggðastyrkingar í dreifbýli landsins. Það er svo augljóst að það fólk sem þarfnast slíkrar þjónustu á að njóta hennar sem næst heimabyggð. Um þetta eru til áætlanir. Áætlununum er mjög auðvelt að hrinda í framkvæmd. Kristnesspítali sem er hluti af Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er í rekstri. Þar mun vera hægt að hefja starfsemi tiltölulega fljótt með minni háttar viðgerðum eins og gat um í tillögunni. Við flutningsmenn leggjum því alla áherslu á að hæstv. heilbr.- og trn. taki þetta mál til umfjöllunar eins fljótt og kostur er, hraði umfjöllun og geri tillögur til ráðherra og ríkisstjórnar.

Þetta er mál sem hægt er að hrinda í framkvæmd og taka inn á fjárlög næsta árs ef vilji er fyrir hendi. Þetta er skjót byggðaaðgerð og ég trúi ekki öðru en að ef mönnum í ríkisstjórnarflokkunum, stjórnarmeirihlutanum, er alvara með því sem sett er fram í byggðaáætlun um styrkingu Eyjafjarðarsvæðis, þá líti þeir á þetta atriði, þennan hluta sem vænlegan kost til að hefja þá vegferð vegna þess að hér er allur undirbúningur fyrir hendi. Hér eru allar áætlanir á borðinu. Að þessu hefur verið unnið lengi. Málið gagnast landinu öllu. Hér er ekki um skæklatog á milli landsvæða að ræða. Við erum að tala um 35 rúm sem eru upptekin á suðvesturhorninu eða Suðurlandi af sjúklingum að norðan sem þarfnast þessarar þjónustu. Málið er fyrir allra hluta sakir mjög gott og borðleggjandi inn í byggðamálaumræðu, til uppbyggingar atvinnumála á landsbyggðinni og inn í umræðuna um aukna þjónustu við sjúklinga sem þarfnast þjónustu af þessu tagi.

Ég ætla ekki að orðlengja mál mitt frekar, virðulegi forseti, en ég legg til að tillögunni verði vísað til heilbr.- og trn. til áframhaldandi vinnu.