Viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 10:42:48 (888)

2002-11-01 10:42:48# 128. lþ. 20.91 fundur 200#B viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[10:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að við séum brött að rifja upp umræðuna sem fram fór í tengslum við samningsslitin við Norsk Hydro. Við eru tilbúin til að rifja þá umræðu upp, bæði hér á Alþingi og utan þings. Þar kom fram að hæstv. ráðherra blekkti Alþingi, sat á upplýsingum sem ráðherrann bjó yfir og gerði þinginu ekki grein fyrir þeim. Við skulum rifja það upp við betra tækifæri.

En það var annað sem við bentum á í tengslum við umræðuna á þessum tíma, þ.e. sú gagnrýni okkar að þetta mál yrði sett inn í þröngan flokkspólitískan farveg Framsfl. Fyrrverandi varaformanni Framsfl. var falið að leita eftir nýjun samningsaðila og við óttuðumst, sem því miður hefur reynst rétt, að sú leitarferð yrði farin á hnjánum.

Nú óskum við eftir því að fá upplýsingar um forsendur þeirra samninga sem fram fara. Það eru okkar óskir. Ég ítreka fyrirspurnir mínar til hæstv. ráðherra: Hvað varð um fyrirheitin, um loforðin sem gefin voru og voru afdráttarlaus, að ekki yrði hafist handa um neinar framkvæmdir nema allir samningar lægju fyrir og Alþingi Íslendinga hefði verið gerð grein fyrir þeim?