Viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 10:51:24 (893)

2002-11-01 10:51:24# 128. lþ. 20.91 fundur 200#B viðræður við Alcoa um álver á Reyðarfirði# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[10:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nú könnumst við við formann iðnn., hinn vaska hv. þm. Hjálmar Árnason, þegar hann er kominn í þann gírinn að þetta sé bara orðin barátta gegn framförum í heiminum. Ég held að hv. þm., formaður iðnn., ætti að huga að sínum þætti í þessu máli. Það er kannski ekki víst að iðnn. hafi að öllu leyti unnið heimavinnuna sína í þessum efnum, eða er það? Og er eitthvað óeðlilegt við það þó að lagðar séu fram spurningar um þetta mál? Finnst hv. þingmanni ekki að menn geti lagt á sig eins og eina messu fyrir ekkert minna en stærstu fjárfestingu Íslandssögunnar?

Í raun og veru væri ekkert merkilegt þó að menn þyrftu lengri tíma alveg burt séð frá því hver líkleg niðurstaða þessa máls yrði. Það eina sem er mjög sérkennilegt er þessi ofboðslega árátta aðstandenda þessa máls til að neita fram í rauðan dauðann að eitthvað sé ekki í lagi, eins og gert var í sambandi við stöðu málsins með Norsk Hydro, eins og gert var þar áður með Eyjabakkana, og eins og áður og aftur og aftur hefur verið gert í sambandi við þessi stóriðjumál, þegar Keilisnesið var undir o.s.frv. Ævinlega er allt svo óskaplega eðlilegt alveg fram á síðustu stundu. Tímarammarnir eru gjörsamlega pottþéttir þangað til þeir hrynja af því að það er aldrei hægt að leggja þessa hluti upp hlutlægt og horfast í augu við það að fjárfestingar af þessari stærðargráðu, óvissuþættir sem eru jafnerfiðir viðureignar og hér eiga í hlut, gera það náttúrlega að verkum að ævinlega má búast við töfum og óvæntum uppákomum í viðfangsefnum af þessu tagi. Það er þá ekkert nema það eðlilega og þá á bara að ræða það hreinskilnislega eins og það er. Það er það sem við förum fyrst og fremst fram á, að veittar séu réttar og fullnægjandi upplýsingar um stöðu mála á hverjum tíma. Ef það þýðir einhverra mánaða töf þýðir það bara einhverra mánaða töf. Af hverju er ekki hægt að segja það? Af hverju þarf að lemja höfðinu við steininn, halda Alþingi óupplýstu og standa í orðaskaki út og suður innan þings og utan eins og gert hefur verið í þessu máli trekk í trekk? Nú erum við að bjóða upp á það að horfið verði frá þessu og þinginu veittar upplýsingar eins og þær liggja fyrir á hverjum tíma.