Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 11:19:40 (899)

2002-11-01 11:19:40# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[11:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. segir að hún hafi verið og sé með þessu frv. að reyna að koma í veg fyrir ástand eins og skapaðist í sumar varðandi yfirverð á stofnhlutum í SPRON og þar væri verið að eyðileggja sparsjóðakerfið.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði einnig, og það er víst ein ástæðan fyrir þessum hugleiðingum og þessum breytingum, að stofnfé sé lítill hluti af eiginfjárstöðu sparisjóða, eins og hún orðaði það.

Mig langar aðeins að vita hvort hæstv. ráðherra hafi eitthvert yfirlit yfir það hvað eiginfjárhlutfall er hátt og hvað stofnféð er mikið af af eigin fé. Ég veit t.d. að í Sparisjóðnum í Keflavík er stofnfé um helmingurinn af eigin fé sparisjóðsins. Stofnfjáraðilar hafa lagt gríðarlega peninga inn í Sparisjóð Keflavíkur til þess að auka eigið fé hans og gera hann rekstrarhæfari. Mér finnst að enginn ætti að heyra það sagt af hæstv. ráðherra að eiginfjárhlutfall sé ekki borið uppi af stofnfjáraðilum.