Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 11:23:28 (902)

2002-11-01 11:23:28# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[11:23]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki rétt sem kemur fram hjá hv. þm. að verið sé að koma í veg fyrir að sparisjóðirnir geti komist inn í nýja tímann. Og þá endurtek ég það sem ég sagði áðan að þetta frv. kveður ekki á um breytingar á lögunum sem sett voru í fyrra. Þau lög gengu út á það að sparisjóðir gætu breytt sér í hlutafélag þannig að sá kostur er enn fyrir hendi. Það sem nú er kveðið á um í þessu frv. og snýr að sparisjóðum er fyrst og fremst til þess að eyða réttaróvissu og til þess að koma hlutum þannig fyrir í lagalegu formi að ekki ríki óvissa og hlutir eins og gerðust í sumar gerist ekki. Ég segi aftur: Gengið er eins langt í þeim efnum og ég tel að við getum gert með tilliti til stjórnarskrár Íslands. Þetta er í þó nokkrum liðum sem hv. þm. á eftir að kynna sér betur en ég tel að þarna sé farin í raun millileið sem allir ættu að geta sætt sig við.