Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 11:26:00 (904)

2002-11-01 11:26:00# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[11:26]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. veit jafn vel og ég duga engar aðferðir einræðisherra á hv. Alþingi. Það þarf vilja Alþingis til þess að þetta frv. verði samþykkt. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. ætli að styðja það miðað við ýmislegt sem hann hefur látið frá sér fara en þetta er spurning um vilja Alþingis. Þetta þarf að koma fram.

Hv. þm. misskilur þetta mál, og þetta eru svo sem fullyrðingar sem ég hef heyrt frá fleirum, að það eigi með löggjöf að taka á því ástandi sem skapaðist í sumar og breyta lögum eftir á. Að sjálfsögðu breytum við ekki lögum aftur í tímann. Það er ekki hægt og bæði þau tilboð sem komu fram í sumar hafa verið úrskurðuð af Fjármálaeftirlitinu sem ólögleg eða ónothæf þannig að ekkert er um það að ræða að tilboð sé í gangi frá fimmmenningunum sem hv. þm. kannast við nú um þessar mundir. Verði þetta frv. að lögum þá gildir það fram í tímann en ekki aftur í tímann.