Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 11:29:32 (907)

2002-11-01 11:29:32# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[11:29]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér er um mikilvægt frv. að ræða sem hæstv. ráðherra leggur fram. Öllum er ljóst að mjög örar og miklar breytingar hafa verið í því umhverfi sem hér um ræðir, umhverfi fjármálastofnana á síðustu árum og ég held að enginn deili um það að því hafa fylgt sumpart nokkrar fæðingarhríðir og nokkrir erfiðleikar, sumir skiljanlegir aðrir með þeim hætti að fyrir þá hefði verið hægt að komast ef menn hefðu verið vökulir og verið á vaktinni.

[11:30]

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á orðaskipti sem áttu sér stað í andsvörum við hæstv. ráðherra þar sem rætt var um gildandi ákvæði varðandi sparisjóði landsins. Hæstv. ráðherra fjallaði um gildandi 3. gr. laga frá árinu 1996, nr. 113, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum, þar sem segir í 3. mgr. 37. gr., með leyfi forseta:

,,Við breytingu á sparisjóði í hlutafélag skv. 1. mgr. skulu stofnfjáreigendur eingöngu fá hlutafé í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína.``

Hæstv. ráðherra sagði að hún hefði undir höndum lögfræðiálit sem skæri úr um að þetta ákvæði laganna væri ekki virkt. Það stangaðist á við stjórnarskrána. Ég vil árétta spurningu mína til hæstv. ráðherra: Ef þessi ákvæði gildandi laga eru aftur upp tekin í frv. sem hún leggur hér fram en virka ekki í raun og sannleika, stangast á við stjórnarskrá að mati hennar lögfræðinga, hvers vegna er þá verið að blekkja fólk og þá sem vinna í þessum geira með því að halda þessum ákvæðum inni? Það er ekki rétt aðferð.

Ég dreg hins vegar mjög í efa, og bið um rökstuðning fyrir því, að þetta ákvæði laganna, sem ég er mjög samþykkur, virki í raun. Ég hygg að það sé hárrétt sem hæstv. ráðherra sagði, enginn ágreiningur var um málið fyrir utan einn eða tvo hv. þm. með önnur sjónarmið. Meginþorri þingheims var þeirrar skoðunar. Þjóðin öll stóð agndofa og fylgdist með þeim atburðum sem áttu sér stað á liðnu sumri. Það er óhjákvæmilegt að rifja það upp af því að hv. þm. Pétur Blöndal kom í ræðustól. Hann lék eitt aðalhlutverkið í því hneyksli sem þjóðin fylgdist með, kom beint út úr þessum sal eftir að hafa verið virkur í þeirri umræðu sem fram fór hér og lýsti því yfir í heyranda hljóði að hann væri orðinn verktaki fyrir ríkisbanka, Búnaðarbankann, til að taka yfir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis og fá greiddar 5 millj. kr. fyrir. Herra forseti. Þetta er auðvitað fullkomlega siðlaust, algerlega siðlaust. Síst átti ég von á því að maður í þessu sal færi fram með þeim hætti sem hv. þm. gerði. Það er kristaltært í mínum huga. Ég er ekki einn um þá skoðun.

Hæstv. ráðherra sagði að hún hefði lýst því yfir opinberlega aftur og aftur að henni hugnaðist ekki þessi nálgun mála hjá Búnaðarbankanum og þær yfirtökutilraunir sem áttu sér stað. Það er kannski aukaatriði en ég þráspurði hins vegar um það í þeirri opinberu umræðu sem þá átti sér stað hvers vegna ráðherrann gripi ekki í taumana. Menn kunna að spyrja: Hvernig hún hefði átt að gera það? Jú, einfaldlega með því að eiga orðastað við fulltrúa sína í stjórn Búnaðarbankans, sem er að langstærstum hlut enn þá í eigu ríkissjóðs. Hún skipar stærstan hluta stjórnarinnar og var auðvitað í lófa lagið að hafa áhrif á þróun mála. Ég vil árétta þessa spurningu mína frá því í sumar í opinberri umræðu og óska eftir svari við henni: Hvers vegna lét ráðherrann ekki kné fylgja kviði? Hvers vegna kom hún ekki þeim sjónarmiðum sínum að rangt væri að verki staðið til þeirra aðila sem stóðu að þessum tilraunum til þess að taka yfir Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis með því að bjóða stofnfjáreigendum yfirverð fyrir hluti sína? Ég held að það sé afskaplega mikilvægt, til að halda öllum hlutum til haga í þessari umræðu, að menn fái það skýrt fram.

Ég held að það þýði ekkert fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað með þau svör að segja að hún láti stjórninni eftir að taka ákvarðanir um lítil og stór mál í bankanum. Við þekkjum auðvitað af öðrum tíðindum að þannig gerast ekki kaupin á eyrinni. Ráðherranefnd um einkavæðingu, einkavæðingarnefnd og öll sú saga, sem ekki er undir að þessu sinni nema óbeint, sýnir okkur að hinir pólitísku fingur koma gjarnan að málum þegar mikið liggur við.

Herra forseti. Um þetta frv. vil ég hins vegar almennt segja að við fyrstu sýn virðist þar tekið á fjölmörgum atriðum með skynsamlegum hætti. Hér er auðvitað verið að steypa saman ýmiss konar löggjöf sem í gildi hefur verið og reyna að ná utan um þetta flókna viðfangsefni sem fjármálafyrirtæki eru á Íslandi á síðari tímum. Það er ekki vanþörf á að við á hinu háa Alþingi förum rækilega í gegnum þá þætti mála. Ég sagði í upphafi að fæðingarhríðir hefðu svo sannarlega herjað á íslenskt fjármálakerfi. Þessi kornungi hlutabréfamarkaður á Íslandi hefur vaxið svo hratt að menn hafa stundum misst sjónar af megintilgangi málsins og farið fram úr sjálfum sér í eftirspurn eftir auðfengnum peningum.

Í þessu samhengi er óhjákvæmilegt að ræða atburði á þessum markaði sem tengjast deCODE, því stóra og mikla fyrirtæki sem allir bundu miklar vonir við og binda enn. Ég vil undirstrika mjög rækilega að ég vona sannarlega að það takist að snúa við þeirri þróun sem þar hefur orðið og fyrirtækið nái vopnum sínum á nýjan leik og verði það öfluga fyrirtæki á þeim velli sem það hefur haslað sér sem vonir stóðu til. Hinu er ekki að leyna að þegar sala á hlutabréfum í þessu fyrirtæki fór fram --- ég vil halda því til haga og vekja á því athygli að hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur flutt tillögu um sérstaka rannsóknarnefnd vegna þess arna sem verður hér væntanlega til umræðu fyrr en síðar --- lögðu 20 þúsund manns og rúmlega það mikið eða lítið fjármagn til þeirrar hlutafjársöfnunar.

Þegar fyrir liggur að verðmæti þessa fyrirtækis fór hæst í 65 einingar en liggur núna í kringum tvær er ljóst að fjölmargir sitja eftir með sárt ennið. Vissulega má segja sem svo að þetta sé eðli hlutafjármarkaðarins. Þetta er sú áhætta sem fólk tekur þegar það leggur fjármuni sína í hlutabréf. Þetta gengur upp og niður. Ef svarið væri svona einfalt væri ekkert við þessu að segja en sögur einstaklinga, ekki eins eða tveggja heldur fjölda, eru með þeim hætti að menn verða auðvitað að skoða nánar bakhlið þessara mála.

Auðvitað má með sanni segja að ekki sé hægt að áfellast einn einstakan fyrir það sem þá gerðist. Vissulega töluðu menn þetta fyrirtæki upp í þessum sal, í fjölmiðlum og hvarvetna. Væntingar voru miklar og eru það sumpart enn. En þær fóru auðvitað út fyrir öll mörk. Ég vildi hins vegar staldra við þátt fjármálafyrirtækjanna sjálfra, þeirra sem stóðu að sölu þessara hlutabréfa á þeim tíma og voru virkir í því. Hver er þáttur sérfræðinga sem stundum koma í sjónvarp eða eru á síðum dagblaðanna og segja frá því hvernig þeir lesi í þróun einstakra fyrirtækja og verðmæti þeirra, lesi í þróun þessa hlutabréfamarkaðar og ráðleggja fólki í þessum efnum um hvar best er að fjárfesta hverju sinni? Voru þeir á vaktinni þegar þessir stóru hlutir gerðust með deCODE á sínum tíma, þegar sumir, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, lögðu aleigu sína, allt sitt sparifé, slysabætur svo milljónum króna skiptir, í þetta fyrirtæki? Þeir keyptu hlutina þegar þeir voru á toppi í 55--60. Hringdu þá engar bjöllur hjá þessum sérfræðingum? Hver var ábyrgð þeirra í þessu samhengi? Um þetta spyrja auðvitað þau þúsund einstaklinga sem eiga um sárt að binda vegna þessa. Ég þekki mjög sár dæmi um þetta þar sem tugir millj. króna, allur ævisparnaðurinn var settur í fyrirtækið vegna þess að sérfræðingar sögðu: Hér er um klára og kvitta ávöxtun að ræða. Hér er ekkert annað en gróði á ferð. Þetta endar í 100 fyrir áramót --- ,,the sky is the limit``.

Maður spyr sig auðvitað um siðferðilega ábyrgð í þessu samhengi og hvort eitthvað geti komið í veg fyrir sefjun eins og þarna átti sér stað. Raunar er það svo, herra forseti, að fjöldamargir slógu lán til að geta tekið þátt í ævintýrinu og fengu lánafyrirgreiðslu í bönkum og fjármálastofnunum. Í mörgum tilfellum tóku fjármálastofnanir hlutabréfin að hluta sem veð fyrir þessu láni. Mér er sagt, ég vildi spyrja hæstv. ráðherra að því --- hann er að vísu farinn eitthvað annað sé ég, herra forseti.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. ráðherra gekk í hliðarsal, kemur að vörmu spori.)

Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hefði um það upplýsingar hvort háar upphæðir lægju í skrifborðsskúffum bankastjóra í hlutabréfum í deCODE sem trygging fyrir greiðslu á lánum sem fólk hefði tekið til kaupa á sömu hlutabréfum. Mér er sagt að þar séu umtalsverðar upphæðir en menn hafi farið sér hægt við innheimtuaðgerðir að svo stöddu og bíði þess sem verða vill.

Hér er um svo stórt mál að ræða, herra forseti, að það er auðvitað óhjákvæmilegt að ræða um það. Ég vil ítreka enn og aftur að enginn má skilja orð mín þannig að þau séu árás á þetta ágæta fyrirtæki deCODE. Það er ekki viðfangsefni mitt. Ég vona svo sannarlega hið besta fyrir framtíð þess. En reyndin er sú að 21 þúsund manns vildu taka þátt í þessu ævintýri. Ég þori nánast að fullyrða, herra forseti, að hver og einn einasti maður í þessum sal þekkir einn, tvo og jafnvel fleiri einstaklinga sem eiga um sárt að binda vegna þess arna.

Herra forseti. Þetta mál stendur upp úr í þessum efnum en auðvitað vekur það spurningar sem við hér inni verðum að reyna að svara. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta öryggisnet, þessi krafa um hæfi þeirra sem ráðleggja og selja, krafan um siðferðisvitund þeirra aðila sem ráðleggja og selja, sé styrkt í frv. sem hér um ræðir. Það verður auðvitað að vera svo.

Ég rifja það upp, herra forseti, að á þinginu 1999--2000 flutti þingflokkur Samfylkingarinnar till. til þál. sem samþykkt var um setningu siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði. Hæstv. ráðherra skilaði skýrslu um þau efni tveimur árum síðar. Siðareglum er í fæstum tilfellum hægt að festa hendur á. Það er spurning um ákveðið hugarfar. Hugarfar verður illmögulega sett á blað en við þurfum auðvitað að breyta um hugarfar. Til stuðnings þeim orðum mínum minni ég á áminningu Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, á ársfundi þess núna á þriðjudaginn. Sé lesið milli línanna sér maður þunga áfellisdóma á fjármálakerfi okkar. Hann fullyrðir raunar að stjórnir fjármálafyrirtækja, sem eru auðvitað lífakkeri þessara fyrirtækja, hafa ekki sinnt hlutverki sínu. Það eru afskaplega stór orð frá þeim aðila sem hefur samkvæmt lagafyrirmælum Alþingis það með höndum að fylgjast með þessum rekstri.

Hann fjallaði á þessum ársfundi í ágætri ræðu sinni um marga þá meinbugi sem finna má á þessu nýja kerfi okkar. Hann nefnir það einfaldlega að verðbréfamarkaðir hafi tapað tiltrú almennings, ekki einvörðungu hér á Íslandi heldur um víða veröld. Öll höfum við fylgst með hneykslum sem riðið hafa yfir markaði í Bandaríkjunum. Hér hefur það smitast inn á íslenskan fjármálamarkað. Mestan part þó, herra forseti, held ég þó að um heimatilbúinn vanda sé að ræða. Ég held að Íslendingar, m.a. vegna þess máls sem ég rakti hér áðan, hafi sjálfir misst tiltrú sína á því að lífssparnaðinum verði best komið með því að kaupa hlutabréf.

[11:45]

Ég vona auðvitað að úr því rætist. Ég hef verið þeirrar skoðunar, og deilt henni með mörgum öðrum, að virkur og gagnsær og traustur hlutabréfamarkaður væri auðvitað eðlilegur í nútímaviðskiptum og nútímaatvinnuháttum. Þess vegna er svo mikilvægt sem raun ber vitni að þar séu traustar stoðir undir. Því hefur því miður ekki verið að heilsa.

Herra forseti. Ég nefndi áðan sparisjóðina --- nú datt klukkan út hjá mér, fór rafmagnið af okkur?

(Forseti (GuðjG): Svo virðist sem rafmagnið hafi farið af hluta salarins, bæði ljós og klukka og tölva og allt saman. Hv. þm. átti eftir fjórar mínútur af ræðutíma sínum og virðist sem allt í lagi sé að halda áfram með ræðuna.)

Ég vil vera viss um að þetta fari á spjöld sögunnar og vita hvort segulbandið sé í lagi.

(Forseti (GuðjG): Þessi ræða mun örugglega geymast á spjöldum sögunnar frá upphafi til enda.)

Þá held ég áfram. Ég vil að lyktum, herra forseti, aðeins fjalla nánar um sparisjóðina og viðskiptabankana.

Það eru áform uppi um og raunar frágengið að selja stóran hlut í Landsbankanum. Í þessu frv. og í inngangsræðu ráðherra var farið í löngu máli yfir mikilvægi þess að tryggja dreifða eignaraðild að sparisjóðunum í landinu. Ég er alveg hjartanlega sammála því markmiði. Og ég hef oft haldið ræður um það, og mínir félagar í Samfylkingunni, að það sama eigi að gilda um stóru bankana tvo, Búnaðarbankann og Landsbankann. En þá er bara allt í einu annarri plötu skellt á fóninn og því haldið fram af hæstv. ráðherra og ríkisstjórninni allri að ekki sé hægt að tryggja dreifða eignaraðild, það sé vonlaust að gera hana þannig úr garði að hún virki í raun og sannleika, eftirmarkaður muni eyðileggja það allt. Eru einhver önnur lögmál sem gilda hér um sparisjóðina? Hentar það betur að halda aðrar ræður um dreifða eignaraðild af því að það passar, af því að sparisjóðirnir eru svo margir og af því að fólk vill dreifða eignaraðild og víðtæka þjónustu sparisjóðanna?

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra svari því hvers vegna það passi við sparisjóðina og virki hjá þeim sem hún telur að geti ekki gengið hjá viðskiptabönkunum, sem hún telur að sé óvinnandi vegur að tryggja hjá hinum stóru stofnunum. 45% hlutur var seldur í einum bita í Landsbankanum. Áður hafði hæstv. forsrh. og raunar ríkisstjórnin öll í kjölfarið --- það er nú yfirleitt þannig --- talað um mikilvægi þess að tryggja dreifða eignaraðild. Upp á síðkastið segjast þau svo hafa skipt um skoðun. Gleymdist að færa það til þess vegar í þessu frv.?

Herra forseti. Ég hef kannski staldrað hér við það sem sumir geta túlkað sem neikvæða þætti þessa máls. Það má enginn skilja orð mín þannig að það frv. sem hér um ræðir sé ekki skref í rétta átt. Ég vona það svo sannarlega, það er viðamikið og flókið um margt en ég treysti vel efh.- og viðskn. til að fara rækilega ofan í saumana á því. Við þekkjum það af sárri reynslu að óvönduð löggjöf í þessum efnum er afskaplega slæm --- raunar í öllum tilfellum --- en tíðindi síðasta sumars gerðu það auðvitað að verkum að menn hljóta að þurfa að vanda sig miklum mun betur núna en nokkru sinni fyrr. Og ég er auðvitað hjartanlega ósammála því viðhorfi sem hér kom fram hjá einum þingmanni að ef vilji þingsins nær ekki fram að ganga eins og gerðist við löggjöfina frá 1996 verði þingið að hnykkja á því, undirstrika það og ganga þannig frá textanum að viljinn nái fram að ganga. Það vil ég svo sannarlega gera og leggja mitt af mörkum til að verði.

Ég vil bara að lokum segja þetta, herra forseti: Það er náttúrlega óviðunandi með öllu að þegar jafnmikilvægt mál og hér um ræðir er rætt hafi hæstv. ráðherra ekki biðlund til þess að sitja í salnum. Ég er búinn að spyrja hana einna sex spurninga og vænti þess að aðstoðarmenn hennar hafi komið þeim til hennar. En það er alveg lágmark að hún eigi hér stund með okkur hv. þm. þegar hún kemur fram með jafnmikilvægt og -viðamikið frv. og hér um ræðir sem við viljum ræða af fullri alvöru og afgreiða til nefndar fyrr en síðar.