Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 12:09:55 (912)

2002-11-01 12:09:55# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[12:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði mikið um brask og siðleysi. Ég vil nú benda á að hv. þm. er sennilega sá þingmaður sem mest er í braski því hann er formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og stendur í því alla daga að kaupa og selja hlutabréf, skuldabréf og aðra pappíra.

Mig langar til að spyrja hv. þm. að því, nákvæmlega eins og ég spurði hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson sem ekki treystir sér til að svara, hvort hann sé sáttur við það veldi sem þetta fé sem enginn á hefur byggt upp í kringum og í gegnum Kaupþing hf. sem er afskaplega duglegt og framsækið og hvasst fyrirtæki, en starfar ekki endilega í samræmi við einhverjar skátahugsjónir. Ég vil spyrja hann hvort hann sé sáttur við yfirtöku Kaupþings á sænskum banka, hvort hann sé sáttur við kaup SPRON á Frjálsa fjárfestingarbankanum á 3,8 milljarða, hvort hann telji það rétt verð. Stjórn SPRON kaupir eitt stykki banka fyrir hærra verð en nemur öllu eigin fé SPRON. Er hv. þm. sáttur við þetta? Er hann sáttur við Meið hf. sem á 21% í Kaupþingi og Kaupþing á aftur 44% í Meiði, þ.e. stjórn Kaupþings ræður mestu um stjórn Meiðs og stjórn Meiðs ræður aftur mestu í stjórn Kaupþings? Stjórn Kaupþings er því að kjósa sjálfa sig. Er hv. þm. sáttur við þessa þróun fjár sem enginn á og er þetta í samræmi við hugsjón hans um jafnaðarmennsku?

Og talandi um dreifða eignaraðild: Ef eftir hefði gengið hlutafjárvæðing SPRON í júní þá ætti einn aðili tæplega 90%, þ.e. 89% í SPRON og það er sjálfseignarstofnunin sem enginn á. Er þetta dreifð eignaraðild að mati hv. þm.?