Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 12:14:57 (915)

2002-11-01 12:14:57# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[12:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist þingmaðurinn vilja drepa þessu máli á dreif. Við skulum nú bara finna þessi ummæli hv. þm. Þau hafa verið rifjuð upp, m.a. í leiðara Morgunblaðsins í (Gripið fram í.) sumar, um hina óprúttnu aðila sem gætu farið að braska með peninga. (PHB: Ranglega.) Ég er að tala um peninga sem menn eiga ekki tilkall til. Um það snýst þetta mál. Hlutur stofnfjáreigenda er vel tryggður. Þeir geta fengið sinn hlut útgreiddan uppreiknaðan samkvæmt vísitölu. Því er ekki á nokkurn hátt gengið á þeirra hlut eins og hv. þm. Kristján Pálsson hélt fram hér fyrr við umræðuna. Spurningin snerist um það hvort þeir eigi að fá miklu meira greitt út úr þessari fjármálastofnun en þeim ber. Út á það gekk málið og það var þar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hafði forgöngu um að knýja verðið upp, langt yfir þau mörk sem siðlegt getur talist.