Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 12:52:32 (920)

2002-11-01 12:52:32# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[12:52]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta er viðamikið frv. Ég geri ráð fyrir því að nefndin þurfi að fara mjög vandlega í gegnum það því þetta er auðvitað mikilvægt mál. Mér sýnist tíminn til þess afar stuttur. Það er gert er ráð fyrir því að frv. verði að lögum og taki gildi um áramótin. Mér kemur á óvart ef það verður reyndin, vegna þess að strax við þessa umræðu kemur fram að það er ekki samstaða í stjórnarliðinu um allt sem í frv. stendur. En þetta á auðvitað allt saman eftir að skýrast betur, bæði við þessa umræðu og síðan við framhaldsmeðferð málsins.

Það sem mig langar til þess að spyrja hæstv. viðskrh. um er hvers vegna ekki eru settar reglur inn í þetta lagafrv. sem komi í veg fyrir það sem er gjörsamlega óþolandi og hefur sýnt sig á undanförnum árum í starfsemi fjármálafyrirtækja, þ.e. að starfsmenn fjármálafyrirtækja geti verið þrefaldir í roðinu í störfum sínum. Ég ætla að rökstyðja þetta.

Það kom greinilega fram í sambandi við sölu á bréfum og öðru slíku hjá fjármálafyrirtækjum, að starfsmenn fyrirtækjanna gátu sjálfir keypt bréf. Þeir voru að kaupa bréf fyrir bankann og jafnframt að ráðleggja viðskiptavinum um hvað þeir ættu að kaupa. Þetta er auðvitað gjörsamlega óþolandi og margir hafa misst traust á fjármálaheiminum á Íslandi vegna þessa. Einhver hluti starfsmanna fjármálafyrirtækja sem efnuðust vel í spillingarbraskinu sem þá fór fram er nú kominn fram á sjónarsviðið til að kaupa eignarhlut í bankanum sem þeir unnu hjá og urðu ríkir af að braska með fjármuni. Þetta er ekki til þess að hæla íslenska fjármálakerfinu. Mér finnst, þegar hæstv. viðskrh. leggur fram frv. eins og þetta, að í því ættu að vera einhverjar leiðbeinandi reglur til þessara fyrirtækja um að í starfsreglum þeirra verði ekki einungis kveðið á um hvað yfirmenn þessara stofnana megi gera, heldur líka starfsmenn.

Svona ástand er ekki þolandi og er ekki í samræmi við það sem tíðkað er á öðrum sviðum. Það er t.d. ekki ætlast til þess að þeir sem kaupa og selja húseignir séu sjálfir að braska með slíkar eignir. Það er meira að segja þannig að þeir sem stunda bílasölu mega ekki braska með bíla. Og það þykir sjálfsagt mál að það sé ekki þannig. Auðvitað mundu viðskiptavinirnir ekki treysta bílasölunum ef þeir vissu að þeir væru sjálfir að braska með bíla. Menn tækju ráðleggingum þeirra a.m.k. mátulega.

Mér finnst nefndin þurfa að fara mjög vandlega yfir það hvort ekki eigi að setja einhvers konar leiðbeinandi fyrirmæli þarna inn. Af lestri mínum á þeim starfsreglum og ábendingum sem hér eru get ég ekki séð að nokkuð sé sagt um að starfsmenn fjármálafyrirtækja geti ekki sjálfir staðið í fjármálabraski. Þó svo að menn hafi gumað mikið af girðingum inni í bönkunum og því hvernig að þeim málum sé staðið sé ég ástæðu til að getið verði í lögum um þau mörk sem ekki má fara yfir.

Svo langar mig að tala svolítið um sparisjóðina. Ég verð að segja eins og er að ég hef ekki haft tíma til að lesa þetta frv. allt í gegn. Ég ætla þess vegna að halda mig við fá atriði þess. Ég ætla að ræða aðeins um sparisjóðina, þ.e. lýsa því sem ég les úr þessu frv. Ég get ekki lesið út úr frv. neina breytingu hvað varðar raunveruleg yfirráð stofnfjáreigenda í sparisjóði yfir öllu fé sparisjóðanna. Ég get ekki betur séð en að þeir geti auðveldlega selt yfirráðin yfir því fé sem sjálfseignarstofnanirnar eiga þegar búið er að breyta þessu í hlutafélög. Þetta 5% ákvæði er bara blöff. Það hefur ekkert með yfirráðin að gera vegna þess að gert er ráð fyrir því að sjálfseignarstofnunin geti ráðið öllu saman. Þess vegna er hægt að selja yfirráðin yfir þessu fé.

Það gengur ekki að senda skilaboð um að gerðar hafi verið einhverjar breytingar sem skipti máli. Þetta eru breytingar sem geta haft áhrif á hvaða tíma menn taka sér í hlutina o.s.frv. en þessar breytingar skipta ekki máli í sambandi við hið eiginlega deiluefni sem hér kom upp. Þessu vil ég koma á framfæri. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann haldi í raun og veru að með þeim breytingum sem hér eru lagðar til sé komið í veg fyrir að menn selji yfirráðin yfir stofnfénu. Ætlaði hæstv. ráðherra sér að að koma í veg fyrir það?

Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta frv. en ég treysti því að hv. nefnd fari vandlega yfir það og skoði hvort þessi úrræði eru nothæf og hvort eitthvað annað gæti dugað til að ná þeim markmiðum sem menn eru a.m.k. að gera grein fyrir í ræðum sínum í þinginu, bæði núna og við umræðuna um sparisjóðina í fyrra. Eða verða menn bara að játa sig sigraða? Þá er bara alveg eins gott að gera það hreinskilnislega en búa ekki til eitthvað hér á hv. Alþingi sem er ekki raunverulegt. Ég legg aðaláherslu á að héðan komi hlutirnir skýrir og ákveðnir.

[13:00]

Við þá umræðu sem fram fór hér í fyrra komst ég að þeirri niðurstöðu að eina raunverulega eðlilega afstaða Alþingis til þessa máls væri sú að sparisjóðir ættu að vera sparisjóðir þangað til þeir hættu að vera sparisjóðir. Það ætti að fara eftir þeim lögum sem voru sett um sparisjóði á sínum tíma, og það ætti ekki að búa til lög sem eiga að breyta því sem gerðist þegar menn ákváðu að stofna sparisjóð. Það er á gráu svæði milli þess að setja lög aftur í tímann og þess að gera það ekki. Ég tel að með ákvörðunum sem þessum --- um að hægt sé að breyta sparisjóðunum í hlutafélög þó að menn fari fögrum orðum um að það sé til að koma þeim inn í nútímann --- sé í raun og veru verið að setja lög sem virka aftur í tímann. Þessi lög voru í gildi þegar menn tóku ákvörðun um að stofna þessa sparisjóði og það var enginn vafi í þeim lögum um hvað ætti að gera ef menn hættu að reka sparisjóði. Þegar menn breyta sparisjóðum í hlutafélög reka þeir ekki lengur sparisjóði eins og til var stofnað í upphafi. Ég held að menn verði að horfast í augu við að í þessu dugir ekkert hálfkák. Ef menn gera breytinguna verða þeir líka að vera menn til þess að viðurkenna hvaða afleiðingar hún hefur.

Ég tel að miðað við þennan lagatexta sem hér er liggi það alveg klárt fyrir að þeir sem eiga stofnféð munu ráða yfir eignarhaldsfélögunum sem þarna er um að ræða og geta selt yfirráðin yfir þeim peningum sem þeir eiga ekki.