Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 13:04:56 (922)

2002-11-01 13:04:56# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[13:04]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði hér um að frv. væri á leiðinni inn sem hefði að geyma hegðunarreglur fyrir þennan markað. Ég vissi ekki um það og taldi einhvern veginn að þær reglur hefðu átt að vera í því frv. sem hér er verið að ræða.

Ég tel að það sé enginn misskilningur á ferðinni af minni hálfu í þessu máli. Ég tel að aðalágreiningurinn hafi ekki snúist um það að menn mættu ekki stofna hlutafélög til þess að reka bankastarfsemi á Íslandi, heldur hvort breyta mætti sparisjóðunum í hlutafélög. Þau skilaboð sem komu í umræðunni sl. vetur voru á þann veginn að þetta mundi allt saman ganga fyrir sig án þess að menn gætu hagnast á því að selja yfirráð yfir fjármunum sem þeir áttu ekki. Ég skildi umræðuna þannig.

Auðvitað er búið að setja þessi lög og þau standa. Skilaboðin sem komu fram í umræðunni voru þó önnur um það hvernig lögin mundu virka. Ég tel --- það varð ég að segja hér og skal endurtaka --- að eins og í pottinn er búið núna sé ekkert vandamál fyrir stofnfjáreigendur að selja yfirráð yfir fjármunum eignarhaldsfélaganna í framtíðinni. Þegar þeir hafa stofnað hlutafélög geta þeir gert það. Alþingi mun með þessum hætti fullkomlega strika undir að það sé allt í lagi. Og þá er það bara þannig og þá eiga menn líka að segja það.