Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 13:51:17 (924)

2002-11-01 13:51:17# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég að blanda mér í umræðu um sumarstörf hv. þingmanns heldur aðeins að víkja að því sem hv. þm. Pétri Blöndal er nokkuð tamt að nefna, fé án hirðis. Hann talar um fjármuni sparisjóðanna eins og þeir séu án eigenda, gjarnan í vörslu fámennrar klíku eins og hann hefur orðað það sem er þó stjórn og starfsmenn sparisjóða.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni um þessa túlkun og finnst hann víkja nokkuð frá þekktu hugtaki í stjórnsýslu sem kallast m.a. fulltrúalýðræði þar sem ákveðnum fulltrúum er trúað fyrir eignum eða valdi. Um það snýst þetta mál.

Nú hefur hv. þm. unnið ötullega hér á Alþingi í bráðum átta ár, m.a. tekið þátt í að greiða atkvæði um fjárlög. Má ekki með nákvæmlega sama hætti segja að þau fjárlög sem verið er að véla um hér og teknar eru um pólitískar ákvarðanir feli í sér fé án hirðis? Lítur hv. þm. svo á að alþingismenn eigi það fé? Eða að fjmrh. eigi það fé? Eða ríkisféhirðir eigi það fé sem fer um ríkiskassann? Ég held að engum detti það í hug, heldur er þetta afleiðing af ákveðinni stjórnsýslu hjá okkur þar sem alþingismenn hafa verið kjörnir til þess að fara með þetta fé, veita það eftir ákveðnum markmiðum og síðan er það fjmrh. og ríkisféhirðir og starfsmenn sem er trúað fyrir þessu fé í umboði þjóðarinnar. Gildir ekki nákvæmlega það sama um þetta og þær eignir sem tilheyra sparisjóðunum?