Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 13:59:09 (928)

2002-11-01 13:59:09# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins ein leiðrétting. Það hefur aldrei staðið annað til af hálfu neins en að standa vörð um hag stofnfjáreigenda, að stofnfjáreigendur geti selt hlut sinn og fengið hann verðbættan.

Í öðru lagi varðandi þessa umræðu um fé án hirðis. Sú hugsun að menn geti aldrei gert nokkurn skapaðan hlut án þess að þeir hagnist á því persónulega er hugsun sem mér finnst ekki vera mjög geðsleg, og reyndar held ég að menn séu líklegri til að sýna samfélagslega ábyrgð ef þeir starfa ekki samkvæmt sérhagsmunum heldur geta barið niður í sér sérgæskuna. Og af því að vikið var að lífeyrissjóðunum áðan hefur mér einmitt oft fundist ákveðin hætta felast í því hve þröngt lífeyrissjóðirnir hugsa um hag lífeyrissjóðsins, bæði samkvæmt lögum og ásetningi stjórnarmanna, að ávaxta hans pund eins vel og mögulegt er án tillits til samfélagslegra þátta. Þegar allt kemur til alls er hagur lífeyrissjóðanna þegar til framtíðar er litið kominn undir því hvernig efnahagslífinu í heild sinni vegnar og þá þarf að sýna ábyrgð. Ef við reisum of harðar kröfur á hendur fjármagninu, viljum fá of mikla vexti út úr því, setjum við hagsmuni heimilanna og fyrirtækjanna á spil og þar með lífeyrissjóðanna þegar til lengri tíma er litið. Ég vara því við þessari þröngu sérhagsmunahugsun.

Síðan er það misskilningur af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem er reyndar ekki nýr af nálinni, að sjóðfélagar komi ekki að stjórnun sjóðanna. Það gera þeir í gegnum samtök sín, samtök launafólks, og atvinnurekendasamtökin frá hinni hliðinni.