Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:07:00 (932)

2002-11-01 14:07:00# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:07]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætlaði rétt að ítreka þau sjónarmið sem ég setti fram hér áðan um þann tvískinnung sem oft kemur fram í málflutningi hægri manna á Alþingi og þar gengur hv. þm. Pétur H. Blöndal mjög framarlega í flokki. Hann er að tala um að við sýnum ábyrgð, ábyrgð með fjármuni. En síðan þegar kemur til hans kasta, hver er þá reyndin? Hann skrifaði hér upp á með samþykki sínu í atkvæðagreiðslu að ráðist yrði í virkjanaframkvæmdir án þess að fyrir lægju samningar um raforkuverð. Hann er að samþykkja hér sölu á eignum ríkisins, ríkisbankanna. Telja menn þar staðið vel vörð um almannahag? Ég held ekki. Hér er búið að gera samninga innan velferðarþjónustunnar sem sannanlega eru mjög óhagstæðir fyrir skattborgarana. Ég nefni þar Sóltúnssamninginn við Öldung hf. þar sem eigandinn kom fram ekki alls fyrir löngu og sagði að hér eftir mundi hann veðja á gamla fólkið, það gæfi svo vel af sér, þ.e. arðurinn af elliheimilum. Hvar eru þá þessir hirðar, þessir fjárgæslumenn Alþingis?

Ekki tjóar að koma hingað upp og segja að hann vilji selja Landsvirkjun eða koma henni úr tenglsum við ríkið. Það er ekki búið að því. Hún er á okkar ábyrgð. Þá er spurningin sú hvernig við sýnum þá ábyrgð í verki.

Hvernig sem á málin er litið, hvernig sem ríkið hefur komið að fjármálastarfsemi og á að gæta hagsmuna almennings þá hefur að mínum dómi verið afskaplega illa að verki staðið. Og því miður hefur hv. þm. sem talar svona digurbarkalega hér jafnan eða yfirleitt ekki verið undantekning. Það eru til undantekningar á því. Ég nefni þar ríkisábyrgðina við deCODE fyrirtækið sl. vor. En þegar á heildina er litið er þetta sú hirðmennska og ábyrgð sem hv. þm. sýnir.