Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:12:30 (935)

2002-11-01 14:12:30# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að svara þessari spurningu. Að mjög miklu leyti hefur þurft að víkja, sérstaklega í skattamálum. Varðandi hátekjuskattinn o.s.frv. þá hefur það gerst og varðandi eignarskatta, lækkun á eignarsköttum sem reyndar koma hinum öldruðu best, þeim öldruðu sem berjast við að halda sér í sinni eign en þurfa að borga eignarskatta af lífeyri sem ekki er til þess ætlaður. Það á því við í skattamálum og í mjög mörgum öðrum málum að sjálfsögðu vegna þess að þetta eru jú tveir flokkar sem hafa mismunandi stefnuskrá. Sjálfstfl. hefur því þurft að beygja sig í mjög mörgum atriðum.

Herra forseti. Hv. þm. talaði um fé án hirðis (Gripið fram í: Þetta er allt Framsókn að kenna.) og hann talaði um kerfið. (Gripið fram í.) Hann sagði að ég væri að tala um framkvæmdina á sölu ríkiseigna. Það er það kerfi sem ég er að gagnrýna. Það er þetta fé án hirðis. Ég hélt við værum að tala um kerfið sjálft en ekki einstaka framkvæmd. Ef hv. þm. er á móti og segir að illa hafi verið að verki staðið í sambandi við sölu ríkiseigna og að Sóltún hafi verið allt of dýrt þá erum við einmitt að tala um það sem ég kalla fé án hirðis. Sóltún er jú greitt af ríkissjóði, herra forseti. Það er greitt af þessu fé sem enginn á eins og margt annað.

Ég tek undir gagnrýni hv. þm. á það dæmi og hugsanlega einhverju í sambandi við sölu ríkiseignanna. Það er kerfið sem er slæmt, þessi uppsöfnun fjár. Það er slæmt. Og það að rífa peninga af fólki í skatta og deila þeim síðan aftur út til þess, getur boðið upp á þau vandræði að afskaplega illa sé að verki staðið eins og hv. þm. kallaði það.