Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:52:45 (946)

2002-11-01 14:52:45# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:52]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði að tilboðið væri ólögmætt. Hún sagðist ekki telja það vera ólögmætt heldur sagði hún að það væri ólögmætt. Hún fullyrti því og hún er nú einu sinni ráðherra. Það er nú ekki alveg sama hver talar.

Hæstv. ráðherra kom ekki inn á þessa dreifðu eignaraðild. Hún sagði það ekki sambærilegt. Ég segi að það sé algjörlega sambærilegt. Þetta er spurningin um það hver fer með eina rödd í viðkomandi fyrirtæki og þegar sparisjóðunum hefur verið breytt í hlutafélög þá fer ein rödd þessarar sjálfseignarstofnunar með nærri 90% í tilfelli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og það tel ég engan veginn vera dreifða eignaraðild.