Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:53:50 (947)

2002-11-01 14:53:50# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að á árunum 1998--2000 gætti talsverðs óraunsæis hér á fjármálamarkaði. Urðu margir illa brenndir eftir það tímabil. Ég óttast hins vegar að þessi tími sé ekki liðinn og að enn gæti óraunsæis og að enn sé að finna glæfraspil og glæframennsku. En allra mesta og versta glæframennskan er sú sem fram fer undir handarjaðri ríkisstjórnarinnar vegna þess að hér hefur verið spilað með almannafé, fyrst í Landssímanum og nú sjáum við aðfarirnar í tengslum við sölu bankanna. Glæframennskan, alvarlegasta glæfraspilið er því það sem fram fer undir handarjaðri ríkisstjórnarinnar. Það er gott og vel að koma hingað upp og tala hér með miklum ábyrgðartóni í röddinni. En mikla mótsögn er að finna í því að gera það og fara síðan fram með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerir.