Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 14:58:26 (951)

2002-11-01 14:58:26# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[14:58]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt því fram hér í morgun að ákvæðin í þessu lagafrv. um 5% yfirráð yfir atkvæðavægi í þessum sparisjóðum væru einskis virði og að öll ráðin væru í hendi þeirra sem réðu í raun sjálfseignarstofnunum. Og þess vegna gætu þeir sem réðu sjálfseignarstofnununum, eftir að þessar breytingar hafa gengið yfir, selt yfirráðin yfir fjármagni sem þeir eiga ekki. Og að með því að leggja þetta frv. fram með þessum hætti væri í raun verið að staðfesta að það væri vilji Alþingis að svona yrði að farið.

Það sem mér finnst á skorta er hins vegar að menn segi það sem þeir eru að meina með því sem þeir eru að gera. Hæstv. ráðherra talaði um að ég væri haldinn einhverjum misskilningi hér í morgun. Þess vegna ítreka ég það sem ég sagði í morgun: Ég tel að þetta liggi nákvæmlega svona.