Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:31:13 (963)

2002-11-01 15:31:13# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Skoðun hæstv. sjútvrh. á stjórnarskrármálinu liggur sem sagt ekki á lausu. Það er ekkert við því að segja. Hann ræður sínum orðum hvað þetta varðar.

En ég vil að mín skoðun komi fram hvað varðar hið fyrra mál sem var verið að ræða. Ég tel að tilefnin til þess að styðja við byggðarlögin muni spretta upp út um allt og að sú braut sem menn eru komnir út á með úthlutun byggðakvóta með þessum hætti og öðrum sem hefur verið tekinn upp á undanförnum árum, muni valda því að þarfir aukast fyrir slíkt með hverju einasta árinu sem líður, þ.e. ef menn vilja taka ákvarðanir um að einhver einstök byggðarlög eigi ekki tilverurétt og eigi þess vegna ekki að fá hjálp þó þau þurfi á því að halda. Þetta er sú nöturlega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir í dag þegar 12 ár eru liðin frá því lögin um stjórn fiskveiða voru sett í þeirri aðalmynd sem þau eru í í dag.