Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:32:42 (964)

2002-11-01 15:32:42# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlýða á svör ráðherra við spurningum sem fram hafa komið í þessari umræðu.

Mig langar að hnykkja á nokkrum spurningum sem vakna eiginlega út frá svörum ráðherrans.

Í fyrsta lagi: Hæstv. ráðherra segir að Þingeyri hafi ekki fallið að skilyrðum krókaúthlutunar. Síðan segir hann að forsendur hafi m.a. verið þær að tekið var mið af skráðum bátum í byggðarlaginu og gengið út frá því að skráðir bátar í byggðarlaginu lönduðu afla, og jafnframt að á Þingeyri hefði verið úthlutað byggðakvóta á sínum tíma. Þeim byggðakvóta var úthlutað til Ísafjarðarbæjar eða byggða í Ísafjarðarbæ. En það var bæjarstjórn Ísafjarðar sem tók þá ákvörðun að setja kvótann allan á Þingeyri í ákveðnum tilgangi á sínum tíma sem við vitum báðir jafnvel hver var, þ.e. að bregðast þar við atvinnuleysi.

Herra forseti. Því spyr ég: Finnst ráðherranum hæstv. eðlilegt að nokkrir trillubátasjómenn á Þingeyri séu alveg settir til hliðar vegna þess að þar eru skráðir bátar með kvóta í stóra aflamarkskerfinu? Ef við tökum önnur svæði, t.d. Flateyri þar sem sennilega eru engir bátar skráðir í aflamarkskerfinu þá fá bátar þar auðvitað fullar bætur og voru ekkert of sælir af þeim. Ég vil bara taka það fram. En trillusjómenn á Þingeyri eru settir skör neðar en aðrir svo dæmi sé tekið vegna þess að þar eru jafnvel skráðir bátar sem aldrei landa þar. Mér finnst þetta svolítið einkennilegar forsendur, herra forseti.