Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:39:13 (968)

2002-11-01 15:39:13# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:39]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur fjölmargt komið til umfjöllunar og komst ráðherra ekki yfir nema fátt af því í ræðu sinni þegar hann svaraði spurningum. Þess vegna vil ég leggja fyrir ráðherrann í upphafi máls ákveðnar spurningar.

Í fyrsta lagi langar mig að ráðherrann svari því skýrt og skilmerkilega hvort honum finnist enn þá rétt sú ákvörðun sem hann tók einn og sér að kvótasetja fleiri fisktegundir, þá á ég m.a. við steinbítinn, ýsuna, skötuselinn, svo eitthvað sé nefnt, keiluna, lönguna og karfann, inn á smábátaflotann.

Finnst honum almennt að vel hafi tekist til við að fjölga fisktegundum í kvótakerfinu? Þá er ég að tala um fisktegundir sem eru meðafli. Það hefur greinilega orðið breyting á sjávarhita við landið. Skötuselurinn hefur t.d. fært sig til á miðunum við landið. Ýsan hefur fært sig að Norðurlandi þar sem lítil veiðireynsla var fyrir. Menn fengu kvótaúthlutun út á veiðireynslu en sitja uppi með tiltölulega litlar aflaheimildar miðað við það ástand sem nú er hér við land.

Hvers vegna tala ég um veiðireynsluna? Jú, það er vegna þess að hæstv. ráðherra gerði það að aðalröksemdum sínum m.a. í túnfiskmálinu að menn gætu ekki litið til veiðireynslunnar einnar í sambandi við réttindi Íslands. Ég tel að þau rök eigi algjörlega við hinar dreifðu byggðir Íslands, þ.e. að ekki sé eingöngu hægt að líta á veiðireynslu manna vegna þess að hér búum við við breytilegt lífríki og breytilegar aðstæður og þeim verður hvorki stjórnað frá reglugerðaborði ráðherrans né með lögum frá Alþingi. Þess vegna á auðvitað almennt í fiskveiðistjórnarkerfum að vera eins mikið frelsi og menn treysta sér til að hafa, burt séð frá því að auðvitað er með veiðum alltaf einhver áhætta tekin í nýtingu stofna.

Þess vegna spyr ég að þessu varðandi kvótategundir sem ráðherrann hefur vald á sjálfur að taka inn eða setja út, þ.e. hvort hann hafi engar efasemdir um þau verk og að það sem hann hefur aðhafst hafi verið til góðs, svona þegar litið er á reynsluna.

Síðan vil ég almennt segja að þó við höfum verið að ræða um kvótaúthlutanir og pottaúthlutanir þá tel ég í raun að pottaúthlutanirnar sem slíkar séu aðeins skóbætur á gallað kerfi og að við séum að festa okkur meira og meira í kerfi sem hentar ekkert endilega fiskveiðunum, alla vega ekki öllum hluta flotans --- þá á ég sérstaklega við smábátaflotann og strandveiðiflotann --- vegna ýmissa breytilegra aðstæðna á miðum hér við land og breytilegrar hegðunar fisktegundanna.

Hæstv. ráðherra sagði hér að tekið hefði langan tíma að skoða úthlutunarreglur varðandi 500 tonnin sem var ætlað að úthluta í fyrra. Mér er það algjörlega ljóst að það þarf að skoða reglur. En með sama hætti er rétt að vekja athygli á því að ýmsir telja að þeir hafi orðið fyrir skakkaföllum vegna þess að þeir hafi verið að bíða eftir einhverju sem þeir héldu að þeir ættu von á innan fiskveiðiársins en fengu ekki. Allt hefur þetta því nú ýmsar hliðar hvort sem menn eru sammála um aðferðina eða ekki, hæstv. ráðherra.

Þó ég sé ekki endilega að taka afstöðu eða leggja upp með það að ég sé sammála þessum pottaúthlutunum þá er þetta staðreynd við núverandi framkvæmd og það skiptir máli hvernig með hana er farið.

Hér var aðeins vikið að 9. gr. laganna um stjórn fiskveiða, um kvótabæturnar. Ég hygg, miðað við að lögin séu í gildi um stjórn fiskveiða með kvótakerfi, að þá sé lítill ágreiningur um 9. gr. enda hefur hún ævinlega verið ætluð til þess að bregðast við uppákomandi tilfellum þegar menn hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna aflabrests eða ef veiðar hafa verið stöðvaðar eða kvótar verulega skornir niður.

En kannski er rétt að vekja athygli á því í þessu sambandi að þrátt fyrir að ákvæði um að nota megi 12.000 þorskígildistonn til þess að bæta skaða sem verður af slíkum orsökum hafi lengi verið í lögunum um stjórn fiskveiða þá hefur það ekki náð til þorsks. Samdráttur í þorskafla hefur ekki verið bættur samkvæmt þessari grein.

Þá er rétt að láta þess getið að auðvitað hefur m.a. sú framkvæmd haft veruleg áhrif á afkomu Vestfirðinga í gegnum árin sem áttu megnið af aflaheimildum sínum í þorski og urðu þar af leiðandi fyrir miklum samdrætti í heildarveiði sinni árin 1983 og 1984 og jafnvel 1985. Síðan fór nú afli vaxandi fram undir 1990. Þá var aftur mikill niðurskurður í þorski eftir 1992 og aflinn fór ekki að aukast að neinu ráði fyrr en 1996 eða 1997. Á báðum þessum tímabilum þurftu því Vestfirðingar að taka á sig geysileg áföll vegna þess að samdrátturinn var í þorski og 9. gr. bætti þar í engu úr.

[15:45]

Það er rétt að halda þessu til haga. Menn hafa oft furðað sig á því að Vestfirðingar hafi lent í vanda með fiskveiðistjórnarkerfið. Í því var ekki ætlast til að samdráttur í þorski yrði bættur þó að verið væri að koma til móts við samdrátt í öðrum tegundum, svo sem rækju, skel og loðnu, svo dæmi sé tekið. Þessu vildi ég halda til haga hér í umræðunni.

Varðandi umræðuna, herra forseti, sem fram fór í gær um að við hefðum lítið rætt fiskeldismálin þá held ég að umræðan hafi af hálfu hv. þm. Hjálmars Árnasonar byggst á ákveðnum misskilningi. Mér fannst á ræðu hans sem hann stæði í þeirri meiningu að nú væri verið að taka ákvörðun um einhver 500 tonn sem ættu að koma á næsta ári. Svo er auðvitað ekki. Samkvæmt frv. er bara verið að færa á milli ára það sem ósett var í kvíar á síðasta fiskveiðiári, gefa mönnum heimild til að nýta það á þessu fiskveiðiári. Við tókum ákvörðun um það á sl. vetri að nota skyldi 500 lestir á hverju ári í fimm ár, eins og hæstv. ráðherra veit, í að efla hér þorskeldi. Mér fannst gæta misskilnings í umræðunni hér í gær hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni.

En aðeins frekar um þorskeldið. Ég var að glugga í skýrslu sem ég fann á netinu hjá sjútvrn., svokallaða AVS-skýrslu. Ég hygg að það standi fyrir Aukið verðmæti í sjávarútvegi. Þar rak ég augun í svartletraða áherslusetningu um þorskeldi þar sem fram kemur að brýna nauðsyn beri til að færa þorskeldi úr kaldsjónum fyrir norðan, af þeim svæðum sem sjórinn er kaldari, til svæða sunnan lands. Ég held ég muni þetta nokkurn veginn rétt úr skýrslunni.

Mér kemur þetta ákaflega á óvart, herra forseti. Menn hafa talað um að þrátt fyrir breytilegan sjávarhita fyrir Vestur- og Norðurlandi hentuðu skjólsælir firðir ákaflega vel til þorskeldis. Mér kemur líka á óvart að það skuli heill hópur mikilhæfra manna setja þessar áherslur inn í skýrslu á sama tíma og sjávarhiti hefur vaxið við landið sem aldrei fyrr. Mér finnst menn ekki alveg vera í takt við tímann þó að vissulega sé hárrétt að það megi stuðla að örari vexti í fiski í hlýrri sjó, jafnt í þorskeldi sem öðru fiskeldi. Á móti kunna að koma ýmsar þær aðstæður sem gera það óhentugt að vera með eldi fyrir opnu hafi, svo dæmi sé tekið. Ég vil draga þetta fram vegna þess að ég furða mig á því að slík fullyrðing skuli sett fram, að brýna nauðsyn beri til að færa þorskeldi úr fjörðum vestan og norðan lands inn á hlýrri sjávarsvæði landsins. Þó að þetta tengist auðvitað ekki beint þessari umræðu felst samt sem áður stefnumörkun í skýrslunni sem unnin er fyrir hæstv. sjútvrh. Ég vil þess vegna spyrja ráðherrann í lok umræðunnar hvort hann telji þessi sjónarmið eiga fullan rétt á sér. Mun hann í framtíðinni beita sér fyrir því að framfylgja m.a. stefnumótuninni sem birtist í þessari skýrslu? Ég tel skipta afar miklu máli fyrir framtíð eldis á þorski í kringum landið að fá þetta upplýst.