Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:51:57 (970)

2002-11-01 15:51:57# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:51]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Varðandi spurningar hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar held ég að ég verði að svara því að nokkuð vel hafi tekist til við að fjölga tegundum í kvóta. Þótt tegundir breyti að einhverju leyti um hegðun held ég að það hefði skapað sams konar vandamál undir öðru fiskveiðistjórnarkerfi og haft þannig neikvæð áhrif.

Varðandi síðan tengsl við lögsögu sem hann nefndi í sambandi við útdeilingu á kvótum milli þjóða á alþjóðavettvangi er það þannig hjá okkur að veiðar eru stundaðar allt í kringum landið. Ég held að veiðireynslan endurspegli í okkar tilfelli þær landfræðilegu eða staðbundnu aðstæður sem fyrir hendi eru. Þær endurspeglast jafnframt í umræðum um tengsl stofna við lögsögur í alþjóðlegu samhengi. Þessi þáttur, tengsl stofna við lögsögur, er notaður í alþjóðlegu samhengi og kannski sérstaklega vegna þess að veiðireynslan endurspeglar ekki staðhætti á sama hátt og ég tel að veiðireynslan endurspegli staðhætti í kringum Ísland.

Varðandi 9. gr., þ.e. að hún hafi ekki verið notuð til að bregðast við samdrætti í þorski þá held ég að það sé ekki alveg rétt. Á tímabilinu eftir 1992, samdráttinn sem varð þá, var úthlutað úr jöfnunarsjóðnum til að reyna að jafna samdráttinn sem þar var um að ræða. En það er rétt hjá hv. þm. að það virkar ekki eins vel að nota 9. gr. þegar samdráttur er í þorskveiðum. Uppistaðan í þeim heimildum sem 9. gr. felur í sér er þorskur. Þannig væru menn þá að miðla dálítið úr einum vasanum í annan. En það var reynt að gera á þessum tíma þótt það hefði kannski ekki mikil áhrif.

Varðandi síðan þorskeldið og hlýrri sjó þá er ég ekki alveg viss um að þessi fullyrðing skýrsluhöfundanna sé rétt hvað varðar þorskinn, að hann þrífist endilega betur í hlýrri sjó við suðurströndina. Þar koma ýmsar fleiri aðstæður inn í. Reynist það hins vegar rétt held ég að fiskeldið muni af sjálfu sér flytjast í hlýrri sjó. Við munum aldrei geta rekið fiskeldi við Ísland ef við erum ekki samkeppnishæf við fiskeldi annars staðar í heiminum. Það þýðir að við verðum að stunda fiskeldið þar sem það er hagkvæmast.

Loks langar mig að reyna að svara spurningu hv. þm. Örlygs Hnefils Jónssonar um hver væri hirðir nytjastofnanna. Þó að ég sjái þetta ekki alveg í samhengi við umræðuna frá því fyrr í dag um fjármálafyrirtæki þá get ég sagt að í því stjórnsýslulega og lagalega samhengi sem við hér að öllu jöfnu hrærumst í sé sjútvrh. á hverjum tíma hirðir nytjastofnanna í kringum landið.