Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:56:15 (971)

2002-11-01 15:56:15# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:56]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni þessara svara, að þorskeldi muni færast í hlýrri sjó (Sjútvrh.: Ef.) ef það hentar betur að ala þorsk í hlýrri sjó verð ég að spyrja annarrar spurningar sem ekki er tengd eldi. Hún er hins vegar tengd kvótakerfinu og kvótastuðlunum. Meðan við erum með framseljanlegan kvóta og leigukvótarnir eða aflamarkið eru til sölu á ákveðnu verði er auðvitað verið að tala um stærri fisk við suðurströndina að öllu jöfnu. Út frá sömu röksemdum og hér var haldið fram af ráðherra, þ.e. ef vaxtaskilyrðin yrðu betri fyrir eldið syðra þó að margt fleira muni auðvitað koma þar inn í, kemur þessi spurning: Munu ekki kvótarnir leita þangað sem fiskurinn er stærstur?

Þessari spurningu var mjög velt upp í umræðunni á síðasta vori og var í raun sett inn í greinargerð með frv. að það skyldi endurskoða þessa kvótastuðla, þ.e. að menn skyldu fara í gegnum þá umræðu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það í lokin hvað hann hyggist með það loforð sem sett var í greinargerðina um að skoða þessa röksemd. Það liggur fyrir að fiskur er ekki jafnverðmætur hvar sem er við landið vegna stærðarinnar. Það veiðist smærri fiskur fyrir vestan og norðan en hér vestan og sunnan lands. Þar af leiðandi sitja menn ekki við sama borð í verðmætum þegar þeir fá kvótana. Ég vil því spyrja hvar þetta er statt, herra forseti.

Varðandi staðbundnar aðstæður og hvernig fiskur færist til er það auðvitað þannig að miðað við líffræðilegar og náttúrulegar aðstæður, eins og ráðherrann veit mætavel, sýnir reynslan af veiðum nokkrum árum áður ekki alltaf rétta mynd. Í þessu erum við fastir.