Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 15:59:47 (973)

2002-11-01 15:59:47# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[15:59]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Rétt í lokin. Ég horfði á fréttir í sjónvarpi í gærkvöldi þar sem verið var að segja frá því að hæstv. sjútvrh. hefði m.a. talið að mikill árangur hefði náðst í stjórn fiskveiða með því að ná niður afla krókabátanna. Það gerðist náttúrlega aðallega í ýsu og steinbít. Þar var verið að kvótasetja. Auðvitað minnkaði þorskaflinn hjá öllum sem hafa kvóta, jafnt krókaaflamarksbátum sem aflamarksskipum.

Á sama tíma og þetta gerist, herra forseti, er verið að auka við kvótann. Það er verið að auka við ýsukvótann um 82%. Ég vil bara gefa ráðherranum kost á að svara þessu hér: Finnst honum það sérstakur árangur? Á að skilja þessi ummæli þannig að það hafi verið sérstakur árangur að ná þessum afla niður á sama tíma og við erum að auka heildaraflann um 82% í einni fisktegund?

Sama á í raun og veru við um steinbítinn, sem ráðherrann var reyndar sjálfur búinn að taka ákvörðun um að gefa frjálsan. Hann hvarf svo frá þeirri ákvörðun og tók steinbítinn aftur inn í kvótakerfið. Hann jók aflann aftur á móti um rúm 2 þús. tonn á milli ára. Eins og ég hef getið um áður gekk þar af afli á síðasta ári upp á rúm 700 tonn sem var notaður í tegundartilfærslu, af stórútgerðinni, sömu útgerð og krafðist þess að þessi tegund færi undir kvóta, sömu útgerð og ráðherrann tilkynnti í gær að náðst hefði árangur við að draga niður afla krókabátanna.

Ég vil gefa ráðherranum kost á því að skýra út fyrir okkur hér hvort þetta hafi verið réttur skilningur hjá mér eða hvort þetta hafi bara verið rangur misskilningur á fréttinni hjá honum. Hvernig á að skilja þessi orð ráðherrans á fundi LÍÚ í gær?