Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 16:01:46 (974)

2002-11-01 16:01:46# 128. lþ. 20.6 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[16:01]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér kost á að leiðrétta þennan --- hvernig orðaði hann það? --- ,,ranga misskilning``. Ég hef stundum heyrt hann nota þetta orðatiltæki áður.

Það er auðvitað ekki réttur skilningur að það hafi verið árangur í sjálfu sér að ná niður kvótanum eða ná niður aflanum. Árangurinn felst í því að ná aflanum nær þeim mörkum sem fyrir fram voru sett eða að hann sé innan þeirra marka sem fyrir fram eru sett. Það er árangurinn sem ég var að tala um. Ég ætla að vona að ef hann heyrir einhvern eða hittir einhvern sem hefur misskilið mig geti hann leiðrétt þetta fyrir mína hönd.

Síðan varðandi steinbítinn er það alveg rétt að ég var búinn að tilkynna það að ég mundi gefa hann frjálsan en m.a. fyrir áeggjan fjölda kjósenda úr kjördæmi hv. þingmanns sem töldu að (Gripið fram í.) það væri betra að hafa steinbítinn í kvóta heldur en að hann væri öllum frjáls breytti ég þeirri ákvörðun minni og setti steinbítinn aftur inn í kvótann. Sem betur fer er ég ekki það þrjóskur að ég geti ekki tekið tillit til ráðlegginga þeirra sem við mig vilja tala um þessi mál.