Fjölgun fjárnáma og gjaldþrota

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:06:24 (978)

2002-11-04 15:06:24# 128. lþ. 21.1 fundur 205#B fjölgun fjárnáma og gjaldþrota# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hef ekki þær tölur á hraðbergi sem hv. þm. nefndi en skal gjarnan reyna að láta vinna að því að fá þær. Ég geri ekki ráð fyrir að þingmaðurinn hafi búist við því að ég kynni þær utan að. En það er sjálfsagt hægt að láta athuga það.

Ég tek undir með þingmanninum að það er engin ástæða til þess að ætla það að Íslendingar séu almennt þeirrar gerðar að þeir kunni ekki fótum sínum forráð, og alls ekki fremur en aðrar þjóðir. Ég held þvert á móti að okkar þjóð sé mjög upplýst og gæti vel að eigin hag. Hitt er annað mál að á undanförnum áratug eða svo hefur aðgangur að fjármagni mjög aukist, eins og menn vita, og þátttaka einstaklinga á hlutabréfamarkaði og í annarri umsýslu á opinberum vettvangi hefur aukist. Það kann að vera einn þáttur í skýringum á þessu. Það sem að ríkinu snýr hins vegar er auðvitað að reyna að halda uppi sem bestu efnahagslífi, minnstu atvinnuleysi og annarri slíkri almennri umgjörð um efnahagslífið. Það er það sem ríkið getur gert til að tryggja að hagur alls almennings í landinu sé sem traustastur. En ríkið getur aldrei, hvorki fyrr né síðar, komið í veg fyrir að ráðagerðar einstaklinga geti farið út um þúfur þó að þær hafi verið vel meintar og sæmilega undirbúnar. Það verður alltaf á forræði hvers og eins.