Vextir verðtryggðra bankalána

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:13:12 (983)

2002-11-04 15:13:12# 128. lþ. 21.1 fundur 206#B vextir verðtryggðra bankalána# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tel þetta ekki gefa sjálfstætt tilefni til að endurskoða reglur um verðbindingu fjárskuldbindinga. Á hitt er að líta að það er líka eðlilegt að vaxtaþróun á óverðtryggðum lánum svari fyrst og fremst, a.m.k. fyrst, þeim breytingum sem Seðlabankinn gerir á vöxtum á sínum endurhverfu viðskiptum. Það hlýtur að teljast langeðlilegast að þær breytingar verði. Afföllin af húsbréfum sem hafa, eins og hv. þm. nefndi, lækkað þurfa ekki endilega að skýrast eingöngu af vaxtaferli Seðlabankans. Þar koma auðvitað aðrir þættir inn í. Til að mynda geta áform stjórnvalda um að á næstu árum verði dregið úr útgáfu húsbréfa haft þau áhrif að slík afföll minnki. Fjárfestingar lífeyrissjóða eða festingar lífeyrissjóða í slíkum bréfum, vegna þess að þeir vilji færa sig af óráðlegum markaði eða órólegum erlendis yfir í öruggari ávöxtun hérlendis, getur einnig haft þau áhrif að afföll af húsbréfum og slíkum pappírum lækki. Kannski hefur það haft meira að segja en endilega vaxtalækkunarferli Seðlabankans sem hefur gengið ágætlega. Það hefði hugsanlega mátt byrja aðeins fyrr. En það hefur gengið ágætlega upp á síðkastið og samkvæmt opinberum upplýsingum frá Seðlabankanum gera þeir ráð fyrir því að sú þróun muni halda áfram. Mitt svar er því það að þessar breytingar gefi ekki tilefni til þess að breyta reglum um verðbindingu skuldabréfa.

Hitt er annað mál að vera kann að það sé umhugsunarefni fyrir bankana að huga að breytingum á verðtryggðum vöxtum og þá ekki bara útlánsvöxtum heldur einnig innlánsvöxtum sem eru töluvert hærri hér en víðast hvar annars staðar þekkist.