Vextir verðtryggðra bankalána

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:16:18 (985)

2002-11-04 15:16:18# 128. lþ. 21.1 fundur 206#B vextir verðtryggðra bankalána# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er ekki ólíklegt að minnkandi afföll á húsbréfum hafi einnig áhrif á afstöðu bankanna því að bankarnir hafa náttúrlega verið í samkeppni við slíka pappíra, ríkispappíra og aðra slíka pappíra þannig að væntanlega hefur sú affallaminnkun áhrif á afstöðu bankanna í þessum efnum.

En svo verðum við einnig að hafa í huga að hér á landi hefur þjóðhagslegur sparnaður ekki verið nægilega mikill og þess vegna kannski hefur verið æskilegt að gefa ráðrúm til verðtryggðs sparnaðar með sæmilegum vöxtum. Þetta þarf allt að leika saman. Ef verðtryggðu útlánsvextirnir eru lækkaðir, þá þarf einnig að lækka hina verðtryggðu innlánsvexti fyrr eða síðar. Og menn þurfa að halda hér uppi þjóðhagslegum sparnaði og til þess hafa menn litið á mörgum undanförnum árum.