Áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 04. nóvember 2002, kl. 15:49:18 (1001)

2002-11-04 15:49:18# 128. lþ. 21.94 fundur 215#B áhrif af skattstefnu ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), PBj
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 128. lþ.

[15:49]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Mikil umræða hefur verið um hækkandi skattgreiðslur einstaklinga og þá einkum vaxandi álögur á láglaunafólk, þar með talda öryrkja og ellilífeyrisþega. Hér er ekki um að ræða staðhæfingar án gildra raka. Gleggsta dæmið um þau er að finna í fréttabréfi ríkisskattstjóra, Tíund, ágústhefti 2002, þar sem Páll Kolbeins fer yfir þessi mál. Þar er ítarlega greint frá hækkunum milli áranna 2001 og 2002 og margt fleira vekur athygli, m.a. hækka fjármagnstekjur en framteljendum þeirra fækkar. Þeim sem nýta sér skattafslátt vegna hlutabréfakaupa fækkar um 48,5% milli þessara ára.

Þá lækkar sérstakur tekjuskattur, hátekjuskatturinn, vegna þess að tekjumörk þess skatts hækkuðu um 15% milli ára. Þar virðist ekki standa á að hækka viðmiðunarmörkin. Þá er boðuð enn frekari lækkun hátekjuskatts í fjárlagafrv. næsta árs. Fyrir hverja er þá réttlæti þessarar ríkisstjórnar? Stefna hennar virðist vera fyrst og fremst sú að lækka gjöld þeirra sem hafa hæstar tekjurnar, og sú aðgerð er fjármögnuð með því að hækka gjöld hinna tekjulægri, m.a. með því að lækka í raun persónuafsláttinn og ná þannig til fleiri lágtekjumanna.

Hæstv. fjmrh. sagði hér, og fleiri stjórnarliðar reyndar, að skattahækkun væri að sjálfsögðu afleiðing hækkandi tekna. Ættu ekki allir að gleðjast yfir því? Staðreyndin er þó sú að milli áranna 1991 og 2002 fjölgaði þeim framteljendum sem greiða tekjuskatt úr 51% gjaldenda í 65% gjaldenda árið 2002. Ástæðan er ekki fyrst og fremst hækkandi rauntekjur heldur miklu fremur sú árátta stjórnvalda að taka persónuafslátt einstaklinga út úr þessari þróun launanna og ná þannig stórauknum tekjum af þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Það er láglaunafólkið, að stórum hluta öryrkjar og aldraðir, sem ætlað er að auka byrðar sínar á meðan hinni nýju stétt hátekjumanna er hampað. Fréttabréf ríkisskattstjóra hlýtur að teljast marktæk heimild um þetta og það er ekki verið að villa mönnum sýn.